Kenýska konan Catherine Ndereba, símastúlka í fangelsi í heimalandinu, setti nýtt heimsmet í maraþonhlaupi kvenna er hún sigraði í Chicagomaraþoninu á sunnudag. Hljóp hún hina 42ja kílómetra vegalengd á 2:18,47 klukkustundum og bætti vikugamalt met japönsku hlaupakonunnar Naoko Takahasi frá í Berlínarmaraþoninu um 59 sekúndur, en það var 2:19,46 klst.
Ndereba vann hlaupið í Chicago annað árið í röð. Með meti sínu í Berlín viku fyrr varð Takahashi fyrst kvenna til þess að hlaupa þessa hefðbundnu keppnislengd á innan við 2:20 klukkustundum.
Karlaflokkinn í Chicago vann landi Ndereba, Ben Kimondiu, á 2:08,52 stundum, en næstu tveir menn á mark eru einnig kenýskir. Annar varð Paul Tergat á 2:08,56 klst., og þriðji Peter Githuka á 2:09,00 klst.
Ndereba, sem er 28 ára, hefur einnig unnið Bostonmaraþonið tvívegis. Hún vann kvennaflokkinn í Chicago með miklum yfirburðum því hún kom rúmum sex mínútum á undan Elfenesh Alemu frá Eþíópíu á mark, en Alemu hljóp á 2:24,54 stundum.
„Bænir mínar og draumar hafa ræst," sagði Ndereba er metið lá í valnum. Sigurtími hennar frá í fyrra var 2:21,33 klst., sem var brautarmet og besti tími heims á árinu, en þá batt hún enda á þriggja ára sigurgöngu eþíópsku hlaupakonunnar Fatuma Roba.
Ndereba reiddist því að hún var ekki valin til að keppa fyrir land sitt á ólympíuleikjunum í Sydney í fyrra og hét því þá að hún skyldi sýna fram á getu sína og hæfni með því að slá heimsmetið. Það hefur hún nú staðið við.