Allir sem stunda langhlaup kannast við það á sumrin þegar góðviðrishlauparar fara á stjá. Þessir nýliðar fara út og hlaupa frekar hratt í smá tíma, 5-10mín eða skemur og kvellspringa svo. Mér þykir persónulega fátt skemmtilegra en að hlaupa uppi þessa skammhaupara en fara ekki frammúr þeim heldur bara liggja aftan á þeim og bíða svo þar til þeir gjörsamlega deyja og þá stinga þá af. Þeir blása og blása en ég, æfi hlaup, blæs varla úr nös og skokka því alveg óþreyttur frammúr.

Hvers vegna gera þeir þetta? Ég tel það vera vegna þess að almennt telur ungtfólk það mjög auðvelt að hlaupa. Það hefur hlaupið í leikfimi og öðrum íþróttum en gera sér ekki grein fyrir því að þegar á að fara lengri vegalengd að þá verður að spara orkuna og forðast að fara í of mikla sýru. Vanur hlaupari veit hinsvegar nokkurnvegin hvar mörkin eru og getur því þrýst á þau án þess að springa.

Ég get séð það á fólki nokkurnvegin strax ef það er ekki vant því að hlaupa, það er ákveðinn kraftur í vönum hlaupara sem sést í hverju skrefi. Ég hef stundum farið á bretti í líkamsræktarstöðum til að taka langa tempó æfingu(klaki og snjór á götum). Ég stilli bara á þann hraða sem ég ræð við í langan tíma (við mjólkursýrutoppinn) án þess að springa og held honum í langan tíma (um 30mínútur). Eftir smá tíma á brettinu er fólk farið að horfa ansi mikið á mig því ég blæs og blæs en spring ekki. Þarna er ég kannski alveg á mörkunum en ég spring ekki. Skammhlauparinn springur alveg en vani hlauparinn getur haldið sér á ferð þó hann sé einsog hinn í öndun. Hins vegar er ekkert mál að sprengja sig þótt maður sé vanur en maður þekkir mörkin og getur forðast það og er líka fljótari að jafna sig.

Hinn venjulegi skammhlaupari er týpan sem hlær að fólki sem er úti að skokka rólega þótt hann viti ekki hversu langt það er að fara. Þegar ég sé hlaupara fara hægt að þá hugsa ég alltaf að kannski er hann bara að fara langt fyrir sína getu og dáist að þroskanum sem hlauparinn sínir. Ekki misskilja mig að fólk á að reyna á sig en það á að fara rólega í það svo það bara fái ekki leið á hlaupum strax.