Paris! Aftur í steininn Paris Hilton var færð öskrandi og grátandi út úr réttarsal í Los Angeles nú fyrir stuttu eftir að dómari úrskurðaði að hún þyrfti að sitja af sér alla 45 daga upphaflega fangelsisdómsins. Eins og slúðurþyrstir vita hafði dómurinn verið styttur niður í 23 daga en í gær var henni sleppt úr fangelsinu, eftir að hafa setið inni í aðeins þrjá daga. Henni var skipað að mæta aftur fyrir rétti í dag og fékk slúðurdrottningin áfall, svo vægt sé til orða tekið, þegar dómarinn kvað upp úrskurðinn.

Ástæðan fyrir því að Paris var sleppt í gær var sögð tengjast heilsu stúlkunnar, en ekkert hefur verið gefið upp frekar um það. „Þetta er ekki réttlátt," öskraði Paris og brast í grát eftir að dómurinn hafði verið kveðinn upp. Því næst hrópaði hún á móður sína sem var stödd í réttarsalnum með henni.

Her fjölmiðlafólks og slúðurblaðamanna hafði stillt sér upp fyrir utan réttarsalinn og fékk mikið fyrir sinn snúð þegar Paris kom hágrátandi út úr réttarsalnum og var færð í lögreglubíl sem flutti hana aftur í fangelsið. Kannski var hótelerfinginn búin undir að gráta svolítið því að hún var óförðuð og í hversdagslegum buxum og peysu, ólíkt því sem fólk hefur mátt venjast undanfarin misseri. Fjölmargir höfðu lýst yfir mikilli óánægju eftir að Paris var sleppt í gær og teljar margir að dómurinn í dag hafi að hluta til átt að lægja þær óánægjuraddir.