Stærsti aðdáendaklúbbur bandarísku söngkonunnar Britney Spear, sem starfræktur hefur verið á Netinu er um það bil að leggja upp laupana þar sem forsvarsmenn hans kunna ekki lengur að meta stjörnuna.

Ruben Gray, sem stofnaði netklúbbinn www.worldofbritney.com, segir framkomu Spears frá því hún sótti um skilnað frá eiginmanni sínum Kevin Federline hafa gengið svo fram af sér að hann vilji ekkert lengur til hennar þekkja. „Britney er að glata persónuleika sínum og áreiðanleika. Hún er búin að vera, að minnsta kosti hvað mig varðar,” segir hann. „Það gildir einu hvort fólk er sammála mér eða ekki. Það er orðið ómögulegt að halda uppi þeirri virðingu sem þetta starf krefst. Þannig að við höfum ákveðið að loka vefsíðunni."

37 milljónir manna hafa heimsótt síðuna frá því hún var opnuð árið 2000.

Britney, sem er móðir tveggja kornungra barna, hefur hvað eftir annað sést nærbuxnalaus úti á lífinu að undanförnu auk þess sem hún sást skemmta sér á brjóstahaldara í síðustu viku.