tekið af mbl.is

Mel Gibson segist hafa barist við alkóhólisma áratugum saman
Kvikmyndaleikarinn og leikstjórinn Mel Gibson sendi frá sér yfirlýsingu í kvöld þar sem hann baðst afsökunar á því að hafa verið handtekinn ölvaður undir stýri. Segist Gibson hafa barist við alkóhólisma áratugum saman og biðst afsökunar á hrösun sinni.

Þá biðst Gibson einnig afsökunar á hegðun sinni í garð lögreglumannanna, sem handtóku hann á föstudagsmorgun á Kyrrahafshraðbrautinni í Malibu í Kalíforníu.

„Ég var algerlega stjórnlaus þegar ég var handtekinn,“ segir Gibson í yfirlýsingunni. „Ég varð mér og fjölskyldu minni til skammar með hegðun minni og biðst innilega afsökunar á því. Ég hef barist við áfengissýki öll fullorðinsár mín og sé afar mikið efir því að hafa hrasað.” Segist Gibson hafa gripið til aðgerða til að ná fullri heilsu á ný.

Gibson, sem er fimmtugur, var stöðvaður á Lexus LS 430 bíl sínum eftir að hann ók á 140 km hraða á vegarkafla þar sem hámarkshraði er 70 km á klukkustund. Í ljós kom að áfengismagn í blóði Gibsons var 1,2‰ en lögleg mörk í Kalíforníu eru 0,8‰.