Hilary Duff svarar kvikmyndagagnrýnanda fullum hálsi Unglingastjarnan Hilary Duff hefur svarað kvikmyndagagnrýnanda dagblaðsins New York Times fullum hálsi eftir að hann skrifaði að hún væri „hæfileikaheft“ á sviði leiklistarinnar.

Gagnrýnandinn, Stephen Holden, hefur ítrekað talað illa um unglingamyndirnar sem Duff hefur verið að leika í að undanförnu, og þá hefur hann tekið hana sérstaklega fyrir.

Duff heldur því hinsvegar fram að hún sé ekki að leika í kvikmyndum fyrir lesendur New York Times.

Í viðtali við tískutímaritið Elle segir Duff: „Hann passar eiginlega ekki inn í jöfnuna. Lítið á mig og skoðið svo hvar hann er - því miður! Myndi hann frekar vilja að ég tæki að mér eitthvert ofur-fullorðinslegt hlutverk sem hentar mér engan veginn og myndi gera það að verkum að ég fengi ekki tækifæri til þess að fá að þroskast og vaxa?“

„Segjum sem svo að næsta hlutverk sem ég tæki að mér væri í svaka spennandi óháðri mynd þar sem ég væri ófrísk eða myndi vera að sprauta mig í æð. Hvaða áhrif skyldi það hafa á aðdáendahóp minn?,“ spyr Duff.