Viðgerðarhlé Formúlu 1 keppnir dagsins í dag fara að miklum hluta fram í viðgerðarhléum. Það er orðið þannig í dag að eina leiðin til að komast fram úr ökumanni er með því að taka ögn styttra viðgerðarhlé en keppinauturinn. Það þýðir líka að minnstu mistök sem verða á viðgerðarsvæðinu geta kostað sigurinn. Þess vegna eru viðgerðarmenn liðanna í stífum æfingum sem miða að því að þeir þurfi ekki að hugsa heldur bara gera hlutina sjálfkrafa. Þessar æfingar eru alltaf haldnar á fimmtudegi, þegar liðin koma að brautinni, og snemma á sunnudeginum.
Í fullkomnu viðgerðarhléi eru að minnsta kosti 22 algjörlega samstilltir viðgerðarmenn. Þeir vinna að því einu að koma bílnum af stað á nýjum dekkjum og með nægt bensín sem fyrst.
Þrír menn vinna, á hverju dekki, að því einu að skipta um eitt dekk. Sá sem vinnu áhættusamasta og best launaða starfið er sá sem krjúpir á hnjánum og kemur loftdrifnum bor fyrir á rónni á dekkinu áður en bíllinn nemur staðar. Hann losar dekkið og á sama tíma tekur maður við hlið hans dekkið af og annar á hinni hlið hans setur það á. Um leið og dekkið er komið á festir bormaðurinn rónna aftur á og hinir tveir fara að hreinsa leifar úr loftgöngum bílsins til að koma í veg fyrir ofhitnun vélarinnar.
Að bensínáfyllingu vinna aðrir þrír menn. Einn sér til þess að dælan gangi og að hún dæli réttu magni. Annar tengir slönguna við bílinn og á milli þeirra er maður sem heldur slöngunni upp. Sá sem tengir slönguna við bílinn þarf að passa að slangan sé í réttu horni og snúi rétt því annars fer dælan ekki í gang. Þetta er gert til að koma í veg fyrir að eldsneyti fari útfyrir þar sem auðveldlega getur kviknað í því. Bensínáfyllingin er mikilvægasti hluti viðgerðarhlésins því hún tekur oftast lengri tíma en dekkjaskiptingin.
Á báðum endum bílsin eru menn með tjakka. Þeir eru með gamaldags tjakka vegna þess að of áhættusamt hefur þótt að nota loftdrifna tjakka því þeir bila auðveldar. Á meðan bíllinn er á lofti er maður sem styður við veltibogan (þessi með langa prikið) til að koma í veg fyrir að bíllin fari að velta til hliðanna því þá er nær ómögulegt að koma fyrir eldsneytisslöngunni.
Ekki má gleyma sleikipinnamanninum sem heldur á skilti sem fyrst vísar ökumanni á réttan stað og segir honum hvenær hann má fara af stað aftur. Að lokum er svo maður sem er með 25 kg slökkvitæki ef eitthvað mistekst en það er skylda samkvæmt reglum FIA. Auk allra þessa manna eru mörg lið farinn að vera með mann sem er tilbúinn að ræsa vélina á ný og mann sem þrífur hjálm ökumannsins.
Allt þetta er gert samtímis og á margfalt styttri tíma en tók þig að lesa þessa grein.
Heimild Planet-F1