Og svo ég vitni beint í bókina
Barist um bikarinn eftir Nigel Roebuck:
…Og það sem gerði þennan harmleik svo ólíkan þeim sem orðið höfðu í kappakstri var að líf hans [Senna] var að fjara út á sjónvarpsskjánum. Mínúturnar eftir slysið sveimaði sjónvarpsþyrla miskunnarlaust yfir staðnum…
[...]
Mér fannst þetta blygðunarleysi og enginn vafi leikur á að það var drjúgur hluti ástæðunnar fyrir því hve mikilli andstyggð umheimurinn lýsti á kappakstri dagana sem á eftir fylgdu.
[...]
Vegna frægðar og vinsælda Ayrtons Senna kom það ekki á óvart að dauði hans varð forsíðufrétt dagblaða um allan heim, þrátt fyrir að í vændum væri sigur Nelsons Mandela í kosningunum í Suður-Afríku. Árið 1994 var svo komið að bestu ökumennirnir í Formúlu 1 voru auglýstir eins og kvikmyndastjörnur og nafn Senna var þekkt um allan heim. Hann var helsta kappaksturshetja síns tíma og fólk sem aldrei hafði séð Grand Prix kappakstur og kærði sig ekki um þekkti hann samt.
Árið 1994 líka tólf ár liðin síðan ökumaður hafði síðast dáið í Grand Prix kappakstri [innskot: og 8 ár síðan ökumaður dó í Formúlu 1 bíl] og á þeim tíma höfðu orðið róttækar félagslegar breytingar í heiminum. Þegar Gilles Villeneuve og Riccardo Paletti dóu árið 1982 var mikið fjallað um það í fjölmiðlum en sú umfjöllun var í sama tóni og ætíð: Mennirnir tveir voru syrgðir en um leið ríkti sá skilningur á því að slík slys væru afleiðing af eðli íþróttarinnar.
[...]
Satt að segja höfðu ungir menn eins og Roland og Ayrton ,,látið lífið við að skapa spennu“ síðan kappakstur á bifreiðum hófst og það hafði verið viðurkennt sem sorglegur fylgifiskur hættulegrar íþróttar. Niki Lauda, sem hefur mikla heilbrigða skynsemi til að bera, benti á að raunar væri furðulegt hversu langur tími hafði liðið án dauðsfalla. Hann sagði: ”Í tólf ár hélt Guð verndarhendi yfir Formúlu 1. Þessa helgi hætti hann því".
Um miðjan tíunda áratuginn var dauðinn aftur á móti orðinn daglegt brauð á sjónvarpsskjám og í dagblöðum, við vorum orðin vön stöðugum myndum af stríðum, sprengjutilræðum og því um líku. Samtímis voru allar tegundir íþrótta að fjarlægjast rætur sínar og nálguðust sífellt skemmtanaiðnaðinn.
Þess vegna var það ekki bara ökukappi sem lá dyejandi á sjónvarpsskjám okkar, það var stjarna. Og það var stjarna sem hafði látið lífið við athæfi sem virtist heldur léttúðugt: Að sanna að hann gæti ekið bifreið hraðar en nokkur annar.
[...]
…Ástæðan fyrir því að Senna dó varð að fréttaefni og engum varð jafnmikið um viðbrögð fjölmiðla og Max Mosley.
“Ég viðurkenni að ég varð agndofa,” sagði forseti FIA, “vegna þess að í mínum huga er svipað að vera ökumaður í Formúlu 1 og að vera orrustuflugmaður. Það er viss áhætta, lítil en þó fyrir hendi, á því að eitthvað fari úrskeiðis. Það breytir því ekki að þetta er mjög sorglegt, sérstaklega ef maður þekkir viðkomandi einstakling, en þetta getur gerst. En almenningur virðist ekki bregðast þannig við núorðið”.
[...]
Úr kaflanum “Dagurinn sem allt breytist”, bls. 13-15, úr bókinni
Barist um bikarinn eftir Nigel Roebuck, í íslenskri þýðingu Ólafs Bjarna Guðnasonar. Skyldulesning.
En þessi litli textabútur endurspeglar viðbrögðin við Senna slysinu.