Ekki ætlar undirbúningstímabilið að ganga áfallalaust fyrir sig hjá keppnisliðunum.
Hondaliðið lenti í veseni við frumsýningu RA107 bílsins í vikunni, þegar Button komst ekki langt frá þjónustusvæðinu áður en bíllinn bilaði.

Eins hefur veðrið hamlað bílprófunum hjá Ferrarimönnum, auk þess að Massa lenti í því að klessukeyra F2007 bílinn í morgun þegar hann flaug út úr lokabeyjunni á Vallelunga-brautinni, Romabeygjunni, og skall á vegg. Massa slapp ómeiddur frá þessu atviki en Ferrari-bíllinn skaddaðist mikið að framanverðu.

Þá flaug nýliðinn hjá McLaren liðinu, Lewis Hamilton, á miklum hraða út úr brautinni í Valencia í gær. Hamilton sakaði þó ekki en MP4-22 bíllinn laskaðist mikið og gæti tekið nokkra daga að lagfæra bílinn.

Þá lenti Super Aguri-liðið í því að 2007-bíll liðsins stóðst ekki árekstrarpróf á dögunum og tekur því við enn frekari vinna hjá tæknimönnum liðsins að styrkja bílinn. Þetta seinkar bæði frumsýningu og æfingaakstri á bílnum.

Það má því segja að hasarinn sé strax byrjaður, þó enn séu um 8 vikur í fyrsta mót ársins.


Heimildir:
Formúluvefur mbl.is
Massa klessukeyrir nýja Ferrarinn
Hamilton ómeiddur eftir harðan skell
Bíll Super Aguri fellur á prófi
Kveðja,