Ég rak augun í þessa frétt á Formúlu 1 vef Morgunblaðsins í gærkvöldi:

Morgunblaðið, 18. janúar,
Räikkönen þarf skriðdreka hjá Ferrari

Nýr formúlubíll Ferrari verður að smíðast eins og skriðdreki eigi hann að þola meðferð Kimi Räikkönen, að sögn Mario Illien, fyrrverandi mótorsérfræðings Mercedes og McLaren.

„Enginn keyrir bíl jafn harkalega, enginn slengir honum jafn kröftuglega upp á beygjubríkurnar. Ferrari þarf að smíða skriðdreka utan um Kimi ef honum er ætlað að vinna titil,“ segir Illien við útbreiddasta blað Þýskalands, Bild, í dag.

Hann yfirgaf formúluna árið 2005 og rekur nú sitt eigið lið í heimsmeistarakeppninni á mótorhjólum, Ilmor MotoGP.

Räikkönen gekk til liðs við Ferrari eftir að hafa keppt með McLaren um fimm ára skeið. Tvisvar hefur hann orðið í öðru sæti í keppninni um heimsmeistaratitil ökuþóra. Mjög oft sprengdi hann mótora sem ökuþór McLaren. Ilmor-mótorar Illiens knúðu McLarenbíl Mika Häkkinen er hann vann heimsmeistaratitla ökuþóra 1998 og 1999. Þá hafa þeir 11 sinnum farið með sigur af hólmi í bandaríska kappakstrinum fræga, Indy 500.

Harður dómur yfir Räikkönen. Sanngjarn? Hvað finnst ykkur?


Bætt við 19. janúar 2007 - 18:08
Í titli korksins átti að standa: ,,Þarf Räikkönen rauðan “skriðdreka”?"