Trulli, Button og Coulthard úr leik
Jenson Button var heldur ákafur í ræsingunni í Monza í dag. Hann skaust vel til hliðar í startinu og æddi upp brautina, en þegar kom að fyrstu beygju lenti hann í vandræðum með að komast aftur inn í þvöguna. Hann skaut sér inn í hópinn en ók þá utan í Jarno Trulli, með þeim afleiðingum að Trulli snerist út af brautinni og komst ekki af stað aftur, og Button sjálfur missti framvænginn. Litlu munaði að verr færi, því bílarnir voru í þéttri röð og áttu dekkjum fjör að launa við að komast framhjá Trulli, sem var þversum í brautinni um tíma. Button náði inn í pytt og fékk nýjan framvæng, en skömmu síðar gaf bíllinn upp öndina og hann renndi sér út í kant. Häkkinen féll niður í þrettánda sætið þegar Button ók á Trulli, en er eitthvað að saxa á aftur. Félaga hans, David Coulthard, farnaðist enn verr, því vélin gaf sig á 7. hring og er hann úr leik. Jos Verstappen er að gera góða hluti og er kominn í 5. sæti, en hann ræsti sem 19. maður.