Ron Dennis, aðalstjórnandi McLaren-liðsins, viðurkennir að mistök hjá verkfræðideild fyrirtækisins skýri hvers vegna drepist hafi á silfurör Davids Coulthard á rásmarki í tveimur af síðustu þremur mótum. Dennis segir að ræsingarstjórnbúnaður bílanna hafi verið gerður óþarflega flókinn.

Silfurörvar McLaren-liðsins hafa þjáðst af bilunum í mótum ársins og Mika Häkkinen hefur ekki komist á mark í fimm mótum ársins af sjö, þar af hefur tvisvar drepist á bíl hans á rásmarki.

Vandinn er orðinn uppsafnaður og hefur valdið liðinu miklum höfuðverk. Í gær gerði Dennis heldur óvenjulegar játningar. „Sumt er í lagi hjá okkur annað hefur mistekist. Við höfum reynt að gera allt sem best úr garði og er við reynum að gera hlutina tæknilega fullkomna aukum við flókindin og þar höfum við bitið í skottið á okkur," segir McLaren-stjórinn.

Aðalvandi McLaren virðist varða ræsingarstjórnbúnaðinn sem gerir ræsinguna auðveldari fyrir ökuþórana og kemur m.a. í veg fyrir spól á fyrstu metrunum. Tæknistjórinn Adrian Newey gaf til kynna nýverið að hann kynni að vera of flókinn og Dennis hefur nú staðfest að svo sé.

Häkkinen beitti búnaðinum ranglega í austurríska kappakstrinum og komst því ekki af stað í A1-Ring er bíllinn drap á sér. Tvisvar hefur drepist á bíl Coulthards á rásmarki vegna galla í stýribúnaðinum, í Barcelona og Mónakó.

Af www.mbl.is Íþróttir-Formúla1