Það eru sjálfsagt jafn mismunandi ástæður afhverju fólk horfir á kappakstur og er Formúla 1 einmitt kappakstur í hæðsta gæðaflokki.

Sumir horfa á kappakstur til þess að sjá mistök ökumanna eða bilun bílsins verða að slysi á meðan aðrir horfa á kappakstur til þess að sjá fegurð aksturs í öllu sínu veldi. Ég er í síðarnefnda flokknum en auðvitað eru flokkarnir miklu fleirri ef ætti að skipta áhorfendum upp en greinin fjallar reyndar ekki um það.

Ástæðan fyrir þessum skrifum er sú að þeir sem síðst skildi eru sjálfir farnir að missa áhugan á formúlu 1 og véfengja ákvarðanir forstjóra, liðstjóra og ökumanna hjá Ferrari en það ku vera lang besta liðið í Formúlu 1 keppninni um þessar mundir. Því langar mig að spyrja þá sem um ræðir: væru Ferrari í þeirri stöðu sem þeir eru nú í ef þeir væru að taka rangar ákvarðanir, veðja á rangan hest, eða gera mistök? Varla.

Í hvert skipti sem Ferrari fer yfir ráslínuna, helst hlið við hlið til að sýna veldi sitt, þá spyr þulur Rúv hinn þulinn: Er þetta það sem við viljum sjá? Mig langar til að spyrja þig kæri þulur á Rúv: Heldur þú að Ferrari sé eitthvað að spá í því hvað þig langi til að sjá? Svarið er nei, nei, nei. Ferrari hafði ekki unnið Heimsmeistara titilin í tæp 20 ár og svo loksins þegar komið er að því að allt smellur saman hjá þeim þá er spurt: Er þetta það sem við viljum sjá? Svarið er Já að mínu mati, Ferrari er að skrifa nafn sitt rækilega í söguna og eftir 10 ár þá á ég eftir að segja frá því þegar Ferrari veldið var upp á sitt besta. Þegar tveir ökumenn báru virðingu fyrir hvor öðrum og unnu saman, annar var nr 1 og hinn var nr 2. Þetta er ekkert nýtt. Þeir fengu góðan bíl til umráða og að mínu mati þá er bíllinn sigurvegarinn í þessari keppni, Bíllinn er Ferrari.

Menn verða alltaf jafn hissa yfir því að Ferrari ökumennirnir skuli ekki berjast innbyrðis, samt sjá þeir aðra liðsfélaga t.d. Williams á indy kappakstrinum keyra harkalega saman þar sem annar endar í 5 sæti og hinn í því 16 sæti, tveim hringjum á eftir bróður sínum, Er þetta það sem við viljum sjá? Sumir gætu sagt já við þessari spurningu vegna þessa að þeir vilja horfa á spennandi kappakstur en þegar keppnin rennur sitt skeið þá skipta stigin máli. 1. sæti= 10 stig – 16. sæti= 0 stig

Blaðamaður www.formula1.is var greinilega óánægður með uppátæki Ferrari í lokin og skrifar

“….sem Ferrari setur gjarnan á svið að ekkert kemur á óvart lengur. Það mátti þó ætla af því að horfa á keppnina í dag eins og reyndar stundum áður, að úrslit móta ráðast ekki af frammistöðu manna í keppninni sjálfri heldur í talstöðvum þeirra Ferrarimanna.”

Þessi ágæti blaðamaður gleymir því að Formúla eitt er ekki bara keppni ökumanna heldur líka keppni bílasmiða, og miðað við árangur Ferrari í ár og gríðarlega yfirburði yfir önnur lið þá mætti ætla að þetta sé miklu meir keppni bílasmiða heldur en ökumanna. Því spyr ég blaðamann formula1.is: Eru Ferrari menn að gera eitthvað rangt hér? Eru þeir ekki bara bestir? Hvaða máli skiptir það hvor Ferrari bíllin fer fyrst yfir línuna? Er maðurinn ekki mjög klár kall sem, allt í einu, datt það í hug að ökumenn Ferrari liðsins myndu ekki keppa innbyrðis, einmitt vegna þess að þeir eru að keppa fyrir sama liðið.

Þegar allt kemur til alls þá eru í raun þulir Rúv og blaðamaður formúla1.is sem tapa í dag. Báðir ættu þeir að segja spennandi sögur af keppninni sem mér fannst vera ein sú besta á öllu tímabilinu en í staðin þá véfengja þeir liðstjóra og ökumenn og spyrja: Er þetta það sem við viljum sjá? Ég spyr á móti: Er Rúv og Formúla 1 ekki háð auglýsingatekjum? Skiptir það ekki máli hve margir áhorfendur og lesendur er af þessum tveim miðlum sem fjalla um formúlu 1 á íslandi, og þá kannski sérstaklega formúla1.is sem er algerlega háð auglýsingatekjum, sem ég best veit?

Að lokum:

Vill einhver Auglýsa á þessum tveim miðlum fyrst niðurstaðan er ákveðin í talstöðvum Ferrari manna?

EÖR