Formúla-1 kappaksturskeppnin er í senn keppni ökuþóra um heimsmeistaratitil og keppnisliða um heimsmeistaratitil bílsmiða. Í hverju móti er keppnislengdin a.m.k. 305 kílómetrar (nema 259 í Mónakó) og ræðst hringjafjöldinn af hversu viðkomandi braut er löng. Geta þeir verið frá 44 (Belgíu) og upp í 78 (Mónakó). Hvert lið teflir fram tveimur bílum. Eru liðin 11 í ár og bílarnir því 22. Með númer 1 er heimsmeistarinn frá í fyrra, Finnin Mika Häkkinen, og því fær liðið hans, McLaren/Mercedes einnig bílnúmer 2. Að öðru leyti ráðast númerin af röð liðanna í keppni bílsmiða í fyrra. Vegna hjátrúar ber þó enginn bíll númerið 13.

Hvert mót skiptist í tímatökur á laugardegi þar sem bílarnir keyra í kapp við klukkuna um hver röð þeirra á rásmarki í kappakstrinum á sunnudeginum verður. Þar sem afar erfitt getur reynst að komast fram úr í sjálfri keppninni getur góður árangur í tímatökum ráðið úrslitum.

Eykur það á spennuna í keppninni að keppendur þurfa að gera eitt til þrjú hlé á akstrinum á leiðinni til að skipta um hjólbarða og bæta eldsneyti á tankinn. Leiðir það til mikilla útreikninga af hálfu liðanna og áætlanagerðar sem er hernaðarleyndarmál hvers liðs. Inn í myndina, hversu oft og hvenær skuli stoppað, reikna liðin hugsanleg herbrögð helstu andstæðinga.

Á nær hverju ári breytast reglur formúlu-1 með einhverjum hætti. Mikil breyting varð fyrir keppnistímabilið 1998 er tekið var fyrir notkun sléttra dekkja og raufuð dekk gerð að skyldu og bílarnir mjókkuðu um 20 sentimetra. Hvort tveggja var ætlað að draga úr hraða og auka á möguleika til framúraksturs en reyndin varð önnur. Fyrir þetta tímabil var dekkjaraufum fjölgað um eina á framdekkjunum, úr þremur í fjórar, en bæði ökumenn og tæknimenn keppnisliðanna telja að það verði ekki til þess að draga úr hraða eins og ætlast var til.

Þá hefur framhjólabúnaði verið þannig breytt að losni hjól af bílnum hanga þau við öxulinn í sérstakri keðju. Tilgangurinn er að ökumanninum stafi ekki hætta af fljúgandi hjólum svo sem verið hefur.

Í fyrra stóð í illdeilum milli liða, sérstaklega McLaren og Ferrari, sem sökuðu hvert annað um að vera með falda tölvustýrða driflæsingu í tölvubúnaði bílanna. Hefur því verið sett í reglur bann við hvers kyns búnaði sem komið getur í veg fyrir að hjól spóli við snögga inngjöf, svo og búnaði er gefur ökumanni til kynna hvort þau spóli. Einnig skulu bílarnir nú þannig útbúnir, að einungis sé hægt að breyta stýringum á drifbúnaði bílanna er þeir nema staðar í viðgerðarhléum. Sætti Ferrari t.d. ásökunum í fyrra um að vera með tölvustýrða læsingu sem breyta mætti með tölvuboðum frá viðgerðarsvæðum á fullri ferð. Með því móti hefði driflæsingin verið numin úr gildi á síðasta hring og því ekkert athugavert fundist við skoðun eftirlitsmanna á bílnum er hann kom í höfn að lokinni keppni.

Vél
Slagrými mótora formúlu-1 bíla má ekki vera meira en 3.000 rúmsentimetrar og hámarksfjöldi strokka er 12, en langflestir bílanna eru búnir 10 strokka vélum.

Gírkassi
Einungis er leyfilegt drif á afturhjólum og verða gírkassar að lágmarki vera fjórskiptir en að hámarki mega gírar ver sjö.

Stærðarmörk keppnisbíla
Hámarksbreidd keppnisbílanna er 180 sentimetrar mælt frá ytri brún afturdekkja. Hámarksvænghaf að framan er 140 sentimetrar og 100 sentimetrar aftaná. Sömuleiðis má framvængur ekki vera fjær framöxli en 90 sentimetra.

Þyngd
Samanlögð þyngd bíls og ökumanns má ekki vera undir 600 kílóum.

Lágreistir
Hæsti punktur bílsins má ekki vera hærra en 95 sentimetra frá jörðu. Þó er hæð veltislár fyrir aftan höfuð ökumanns undanskilin og má hún vera hærri en þó ekki þannig hönnuð að hún geti haft afgerandi straumfræðiáhrif á afköst bílsins.

Hámarkshæð afturvængja er 80 sentimetrar frá jörðu.

Dekkin
Öll dekkin fjögur verða að vera með fjórum raufum hvert er ná allan hringinn og liggja samsíða lengdarás bílsins. Gripflötur framdekkja má ekki vera breiðari en 27 sentimetrar.

Ökuþórarnir hafa til skiptana í hverju móti 32 þurrdekk og 28 blautdekk og er kornasamsetning þeirra og gúmmíharka mismunandi. Fyrir tímatökur verða þeir að ákveða hvaða gúmmíhörkutegund þeir ætla að nota og í tímatökunum mega þeir að hámarki nota 16 dekk.

Hámarksbreidd hjóla er 38 sentimetrar og þvermál þeirra má ekki fara umfram 66 sentimetra.

Eldsneyti
Heimilt er að stoppa og taka eldsneyti meðan á keppni stendur og engin takmörk eru sett hversu mikið eldsneyti er brúkað. Hins vegar er efnasamsetning þess háð viðmiðunarreglum og verður lið að fá samþykki hverju sinni fyrir því eldsneyti sem það ætlar að nota og leggja fram sýni til efnagreiningar.

Ekki er heimilt að bæta smurolíu á bíl meðan á keppni stendur.

Í ár tóku og gildi reglur er krefjast þess að olíukælir sé tengdur inn í loftinntak vélar til að koma í veg fyrir að olía leki niður á akstursbrautina.

Keppnisbúnaður
Hver bíll verður að vera búinn annað hvort tveimur kvikmyndatökuvélum eða tveimur myndavélarhúsum eða einu af hvoru þessara meðan á móti stendur Þá verður hver bíll að vera búinn sérstökum tímatökusvara sem tímatökufyrirtæki keppninnar lætur liðnum í té.

Æfingar og tímatökur
Frjálsar æfingar í braut eru heimilar tveimur dögum fyrir keppni (þremur í Mónakó) frá klukkan 11-12 og 13-14 að staðartíma.

Daginn fyrir keppni eru sömuleiðis frjálsar æfingar frá 9-9:45 og 10:15 til 11 að staðartíma. Þá fá liðin 30 mínútna upphitun sem hefst fjórum og hálfri stundu fyrir keppnina sjálfa.

Tímatökur, þar sem röðun á rásmarki ákvarðast, fer fram daginn fyrir keppni klukkan 13-14 að staðartíma. Hver ökuþór má aka samtals 12 hringi innan þeirra tímamarka. Aki hann fleiri hringi strokast allur árangur hans í tímatökunum út.

Til þess að fá að taka þátt í keppninni verður árangur hans að vera innan 107% af besta brautartíma í tímatökum daginn fyrir kappakstur.

Varabíl mega liðin grípa til í tímatökum en ekki í frjálsum æfingum.

Keppnislengd
Fjöldi hringja sem ekinn er í hverjum kappakstri ræðst af brautarlengd á hverju stað, en keppnislengdin skal að lágmarki vera 305 kílómetrar. Undanteking er Mónakókappaksturinn þar sem heildarvegalengdin er 259,6 kílómetrar. Aksturstími skal að hámarki ekki vera lengri en tvær klukkustundir og sé lágmarksvegalengdinni ekki náð fyrir þann tíma er köflótta flagginu veifað er tíminn rennur út.

Rásmerki með rauðum ljósum
Ljósmerki á marklínu eru notuð til að gefa liðunum til kynna ýmsar ráðstafanir á síðustu 30 mínútunum áður en rásmerki er gefið. Vélar bílanna eru ræstar einni mínútu áður en bílarnir fá að aka upphitunarhring og allir liðsmenn verða að fara þá af brautinni. Þegar bílarnir hafa tekið sér stöðu á viðeigandi rásmarki eftir upphitunarhringinn kvikna fimm rauð ljós yfir marklínunni með ákveðnu millibili, bílarnir mega þó ekki þjóta af stað fyrr en slökkt er á þeim. Það er hið eiginlega rásmerki.

Stigagjöf
Einungis fyrstu sex ökumenn í mark í hverju móti vinna stig í stigakeppni ökuþóra til heimsmeistaratitils. Sömuleiðis fá fyrstu sex bílarnir stig í keppni bílsmiða. Fyrsta sæti gefur 10 stig, annað sætið 6, þriðja sæti 4, fjórða sæti 3, fimmta sæti 2 og hið sjötta 1 stig.

Brot gegn keppnisreglum
Meðan á kappakstri stendur kann ökuþórum að vera refsað fyrir margskonar brot gegn keppnisreglum. Fá liðin fyrirmæli um að stefna keppendum inn á bílskúrasvæðin og nema þar staðar í 10 sekúndur áður en þeir fá að aka áfram út í brautina. Verða þeir að koma inn innan þriggja hringa.

Algengast er að refsing af þessu tagi sé veitt vegna of hraðs aksturs á brautunum að og frá bílskúrasvæðunum þar sem þeir taka eldsneyti eða skipta um dekk. Hámarkshraðinn í þeim er frá 80-120 km/klst. Ökuþórnum er sýndur svartur fáni til marks um brotið og verður hann að koma strax inn eftir að það er sýnt og taka út refsinguna. Sé ökumaður hins vegar úrskurðaður til slíkrar typtunar þegar einungis fimm hringir eru eftir af keppninni þarf hann ekki að stöðva á bílskúrasvæðinu heldur getur hann haldið áfram en við lokatíma hans bætast 25 sekúndur.

Fánar sem flaggað er fyrir ökumenn
Keppnisdómarar nota ýmis konar flögg til að koma fyrirmælum til ökuþóra meðan á keppni stendur. Með rauðu flaggi er keppni stöðvuð og svart flagg með númeri viðkomandi bíls er sýnt ökumanni sem dæmdur er úr leik. Verður hann að koma tafarlaust inn á viðgerðarsvæðin. Blátt flagg er sýnt ökumanni þegar annar hraðskreiðari keppandi er að draga hann uppi og sé því veifað ber honum að víkja fyrir honum snarast. Þá er blátt flagg sýnt ökumanni á leið út af viðgerðarsvæði séu bílar að nálgast útkeyrsluna.

Gul flöggum er ýmist haldið kyrrstæðum eða veifað til marks um að ökumönnum beri að hægja á sér vegna hættu í brautinni. Framúrakstur undir gulum flöggum er harðbannaður. Þegar hættan er liðin hjá er grænum flöggum veifað til marks um að óhætt sé að keyra aftur á fullu.

Flagg sem er til helminga svart og hvítt er sýnt ökumanni sem aðvörun um óíþróttamannslega hegðun en hann fær að aka áfram. Sé keppanda sýnt svart flagg með rauðum hring í miðju glímir hann við vélræna bilun og verður að koma inn á viðgerðarsvæði.

Loks er köflóttu flaggi veifað til marks um að kappakstrinum sé lokið þegar fyrsti ökuþórinn ekur yfir endamarkið.

Öryggisbíll í brautinni
Ef ástæða þykir er svonefndur öryggisbíll stundum sendur út í akstursbraut til að hægja á ferðinni eða jafna keppninna vegna einhverra óvæntra atvika. Þó er jafnan eingöngu gripið til hans þegar veruleg hætta er á ferðum