Jenson Button kom verulega á óvart á síðasta tímabili og fór fram úr björtustu vonum þeirra sem studdu hann. Hann hefur verið mikið lofaður og nú síðast var það Niki Lauda, þrefaldur heimsmeistari, sem lét hafa eftir sér að Button hefði verið áhugaverðasti ökumaðurinn í ár. “Button náði athygli minni þegar hann átti besta tímann á Nurburgring brautinni á æfingu”. Lauda er þá kominn í hóp merkilegra manna sem hafa verið að hæla Button, má þar nefna menn eins og Damon Hill, Ross Brawn, Gerhard Berger hjá BMW og að sjálfsögðu Flavio Briatore sem Button keyrir fyrir á næsta ári. “Það er mikil áhætta hjá Williams liðinu að ætla að treysta á Juan Pablo Montoya næstu 2 árin og sleppa Button í staðinn. Það er nokkuð ljóst að Button gæti orðið næsta stjarnan í Formúlunni en það er auðvita erfitt að dæma um það fyrirfram. Ég verð mjög undrandi ef Montoya gerir betur en Button” sagði Lauda.