reppa virðist í höfuðstöðvum BAR-liðsins varðandi framtíð Jacques Villeneuve en hann og Craig Pollock aðalstjórnandi liðsins gætu þó hugsanlega leyst úr vandanum í stuttu fríi sem þeir fóru saman í um helgina og stendur þar til þeir fara til Austurríkis í dag eða á morgun.

Villeneuve hefur lagst gegn því að semja um hugsanlegt áframhald sitt hjá BAR við yfirstjórn liðsins. Hann vill sem fyrr eingöngu semja við Pollock. Þeir hafa verið nánir vinir frá því Pollock var skíðaþjálfari Villeneuves og hefur ökuþórinn haft hann að umboðsmanni alla tíð á keppnisferlinum.

Hermt er að Villeneuve sé mun ánægðari með bíl sinn en áður en hann náði fjórða sætinu í franska kappakstrinum í Magny Cours á dögunum. Og þrátt fyrir vonbrigði hans með að Jordan skuli fá sama mótor og BAR frá Honda á næsta ári mun hann vera tilbúinn að vera áfram hjá liðinu og semja til tveggja ára.

Hins vegar mun Villeneuve vilja gera þannig samning að hann hafi útgönguleið er gerði honum kleift að semja við McLaren, Renault eða þess vegna eitthvað annað lið ef tækifæri býðst.

Með þessu yrði BAR allavega tryggð þjónusta hans eitt ár til viðbótar sem reynst gæti liðinu mikilvægt gagnvart Honda, ekki síst vegna samninga verksmiðjanna við Jordan.