Orðrómur á bílskúrasvæðum formúlubrauta hermir að McLaren hafi boðið David Coulthard tveggja milljóna punda bónusgreiðslu, jafnvirði 230 milljóna króna, vinni hann Michael Schumacher í keppninni um heimsmeistaratitil ökuþóra.

Laun Coulthards munu hafa verið hækkuð um meira en 50% í samningi sem hann undirritaði í Magny Cours á dögunum.

„Peningar hafa ákveðið mikilvægi en það eru þó ekki þeir sem drífa mig áfram,“ segir Skotinn. „Ég er nú þegar orðinn milljónamæringur en það sem ég vil umfram allt er að vinna kappakstursmót og heimsmeistaratitilinn. Ég vil standa á efsta þrepi verðlaunapallsins, það er mælikvarðinn á árangur, hef engan áhuga á öðru eða þriðja sæti, búinn að fá meira en minn skerf af þeim á ferlinum, bætti hann við. Ég hef aldrei verið í jafn góðri æfingu og vel stefndur á ferlinum og ég hef trú á að geta orðið efstur,” bætti Coulthard við.