Fjórir heimsmeistarar keppa 2010 Nýlega heyrði ég formúlufréttir og áttaði mig á því að í ár mæta til leiks fjórir ökumenn sem hafa þegar unnið heimsmeistaratitil ökumanna. Þetta eru vitaskuld þeir, Jenson Button (heimsmeistari 2009), Lewis Hamilton (2008), Fernando Alonso (2005-2006) og sá ökumaður sem unnið hefur flesta heimsmeistaratitila ökumanna frá upphafi formúlu 1, Michael Schumacher (1994-1995, 2000-2004). Fýsti mig að vita hvenær síðast hefðu mætt svo margir heimseistarar ökumanna til leiks á sama keppnistímabilinu. Það endaði, eins og mín er vísa, með Excel skjali sem teygði sig aftur til 1950. Athugið að þetta er grófleg athugun, það gætu leynst í henni villur.

Ef einungis eru taldir með þeir sem þegar hafa unnið heimsmeistartitil ökumanna, fyrir það tímabil sem um ræðir, voru síðast fjórir heimsmeistarar að keyra í einu árið 1999. Þá voru það Mika Häkkinen (1998-1999), Jacques Villeneuve (1997), Damon Hill (1996) og Michael Schumacher.

Þar áður höfðu ekki verið svona margir heimsmeistarar að keppa sín á milli frá því árið 1973. Á árunum 1964-1973 vorir fjórir heimsmeistarar að keppa sína á milli á átta tímabilum, 1966 voru þeir fimm (þar er með talinn Phil Hill sem reyndar ók bara eina keppni, sem hann kláraði ekki) og 1972 voru þeir þrír.
Þeir ökumenn sem áttu í hlut á þessu tímaskeiði voru Jack Brabham (1959-60, 1966), Jim Clark (1963, 1965), Graham Hill (1962,1968), Phil Hill (1961), John Surtees (1964), Denny Hulme (1967), Jackie Stewart (1969, 1971, 1973) og Emerson Fittipaldi (1972,1974).

Einnig er athyglisvert að telja fjölda heimsmeistara sem taka þátt á hverju tímabili og telja þá með sem ekki hafa þegar unnið heimsmeistaratitil ökumanna, en hafa gert það síðar á ferlinum. Flestir voru heimsmeistararnir á tímabiliunum 1966 og 1968, eða átta talsins. Árið 1966 voru Jack Brabham, Jim Clark, Graham Hill, Denny Hulme, Jochen Rindt (1970), Jackie Stewart, John Surtees og Phil Hill allir skráðir til leiks í a.m.k. eina keppni.
Sömu menn kepptu á árinu 1968 fyrir utan Phil Hill en á móti telur að Mario Andretti (1978) tók þátt í tveimur keppnum. Fleiri af ökumönnunum tóku ekki þátt í öllum mótum ársins og því hefur það aðeins gerst einu sinni að átta heimsmeistarar hafi mætt til leiks í einni og sömu keppninni: á Ítalíu 1966, sem er eina keppnin sem Phil Hill var skráður í það ár.

Á árunum 1964-1985 voru 6-7 heimsmeistarar að keyra á hverju tímabili. Síðan þá hafa þeir verið 4-5 á tímabili en tvisvar hafa þeir verið sex. Árið 1991 voru það Nelson Piquet (1981,1983,1987), Alain Prost (1985-86, 1989, 1993), Ayrton Senna (1988, 1990-91), Nigel Mansell (1992), Michael Schumacher og Mika Häkkinen.
Tímabilið 2001 kepptu Michael Schumacher, Jacques Villeneuve, Mika Häkkinen, Fernando Alonso, Kimi Räikkönen (2007) og Jenson Button.

Nú er bara að sjá hvort fleiri af þeim ökumönnum sem skráðir eru til keppni í ár komist á blað í þessari tölfræðiskráningu.
Forever is such a long, long time and most of it hasn't even happened yet.