Kimi Räikkönen kveður Formúlu 1 Það er þá ljóst að Kimi mun kveðja Formúlu 1 að sinni, hann kveðst vera að taka sér árs frí frá keppni í F1 hið minnsta. Af því tilefni ætla ég að rita hér stutta grein um veru kappans í formúlunni. Hann vann eins og flestir ættu að vita meistaratitil ökuþóra árið 2007 og því á hann skilið að fá smá umfjöllun um sig, því það er ekki eins og við séum að sjá á eftir asísku auglýsingaspjaldi.

Kimi Matias Räikkönen fæddist þann 14. október árið 1979 í Finnlandi, nánar tiltekið í bænum Espoo. Ungur að aldri fór Kimi að reyna fyrir sér í akstursíþróttum líkt og flestir ökumenn formúlunar. Þegar Kimi kom inn í formúlu 1 árið 2001 var hann sennilega einn óreyndasti ökuþór sem keppt hefur í greininni. Honum var kippt beint inn úr Formula 2000 Renault og hafði því litla reynslu af ökutækjum í svipuðum klassa og notuð eru í formúlu 1.

Fyrsta tímabilið hans keppti hann með Sauber Ferrari. Sagan segir að fyrir fyrsta mótið sitt, Ástralíu kappaksturinn, hafi ekki munað miklu að Kimi svæfi yfir sig, þar sem hann hafði farið upp á hótel að leggja sig rétt fyrir keppni. Þessi saga er hluti af því upphafi sem síðar varð að gælu nafninu “Ísmaðurinn”. Til gamans má benda á þá staðreynd að Kimi lauk sínu fyrsta móti í 6. sæti sem var þá síðasta stigastætið, en það var talinn ansi góður árangur hjá svo óreyndum ökuþór og þóttu mönnum hann sýna mikla hæfileika strax frá upphafi.

Fljótlega á ferlinum vann Kimi sér inn gælunafnið Ísmaðurinn eins og fyrr segir, en það nafn kom til vegna þess að mönnum þótti hann harður og kaldur í brautinni og menn dáðust að dirfsku hans í brautnni.

Atvik í Formúlu 1 falla mis vel með mönnum, en segja má að Kimi hafi komið á hárréttum tíma til keppni. Ástæðan fyrir því að ég segi þetta er jú sú að hann kom og sýndi aðstandendum keppnisliða hvers hann var megnugur á fyrsta árinu sínu, á sama tíma hafði Mika Häkkinen ákveðið að draga sig úr keppni og varð það til þess að hann veitti Kimi sinn stuðning til þess að komast að sem arftaki Mika Häkkinen hjá McLaren liðinu. Næstu árin fóru í mikla baráttu hjá Kimi að byggja upp McLaren liðið upp á nýtt og berjast um nokkra meistaratitla.

Það var svo árið 2003, þar sem Kimi var nærri því búinn að næla sér í meistaratitil ökumanna en tapaði honum með aðeins tveggja stiga mun á Michael Schumacher. Hér væri hægt að fara í langar umræður um hversu ósanngjörn þessi úrslit voru, en ég ætla nú bara að láta það duga að nefna hvað mönnum fannst ósanngjarnt. Það sem fór mest í stuðningsmenn Kimi var það að í evrópukappakstrinum þetta ár var Schuamcher ýtt inn á brautina eftir að hafa farið útaf og setið þar fastur, skilaði þetta honum fjórum stigum, sem sagt án þeirra hefði Kimi orðið meistari. Hitt atvikið var það þegar sigurinn var dæmdur af Kimi í Brasilíu vegna þess að keppnin var flautuð af og hann hafði farið inn í þjónustu hlé tveim hringjum áður en keppnin var stöðvuð, en samkvæmt reglum gildir staðan tveim hringjum áður en keppni er stöðvuð. Við þetta voru margir ósáttir, en eftir á að hyggja verður að segja að þetta hafi verið hlutir sem gerðu íþróttina áhugaverðari og meira spennandi.

Árið 2004 var dauft fyrir Kimi, en árið 2005 háði hann harða baráttu við Fernando Alonso um meistaratitil ökumanna sem endaði þó með sigri þess síðarnefnda, en nú munaði heldur meiru á 1. og 2. sæti en árið 2003, eða alls 21 stigi. Árið 2006 var álíka ár hjá Kimi og 2004, lítið sást til hans og honum gekk ekki svo vel.

Það var svo í lok árs 2006, sem Ferrari keypti hann yfir til sín. Kimi hélt til Ferrari með stóra drauma og samning til ársins 2010. Árið 2007 varð síðan árið hans, en mestan part af árinu var hann ekki talinn líklegur sem meistari, því þá voru nokkur mál í algleymingi. Fyrsta lagi var það njósnamál McLaren sem tók mikla athygli til sín, svo var það barátta liðsfélaganna Lewis Hamilton og Fernando Alonso hjá McLaren. Það má segja að Kimi hafi komið bakdyra megin inn í keppnina það ár og vann á endanum með 1 stigi á 2. og 3. sætið. Þar með hafði Kimi ná sínu langþráða markmiði að verða meistari ökuþóra.

Árin 2008 og 2009 voru ekkert sérstök hjá honum, áhugaleysið var mikið og mest allt útlit fyrir það að Kimi væri orðinn saddur eftir einn meistaratitil. Það varð svo raunin nú þegar hann tilkynnt það að hann ætlaði ekki að leggja Formúlu 1 fyrir sig næsta árið a.m.k.

Í lokinn ætla ég að koma með smá tölfræði um Kimi:
Sigrar: 18; Ráspólar: 16; Stig: 579; Hraðasti hringur: 35; Keppnir: 157; Á palli 62.