Sigurvilji Ég hef verið að velta fyrir mér upp á síðkastið hvað sé að gerast með Mika Hakkinen. Hann hefur reyndar ekki alltaf haft heppnina með sér í ár. Það er þó ekki hægt að segja að það sé megin ástæðan þess að hann hafi ekki skilað viðunandi árangri.

Á meðan hefur David Coulthard blómstrað sem aldrei fyrr. Maður var farinn að hallast að því að hann væri kominn í slæm mál, en drengurinn virðist hafa fundið einhvern neista til þess að taka sig saman í andlitinu og hefur sýnt skemmtileg tilþrif það sem af er árinu. Reyndar fór honum að ganga mun betur eftir að hann lenti í flugslysinu fyrr í sumar. Maður var í fyrstu smeykur um að það myndi draga allan kjark úr kappanum, en það virðist hafa haft einmitt öfug áhrif. Reyndar var ég þess viss eftir fyrstu keppnina sem var háð eftir slysið að þetta væri svona svipað og þegar G. Berger missti föður sinn. Hann vann næstu keppni á eftir, reyndar þá einu sem hann vann það árið.

Meðan á þessari lægð M. Hakkinen hefur staðið eflist staða M. Schumacher og hann hleður inn stigum fyrir sig og Ferrari. Ég byrjaði að fylgjast með F1 árið 1992 á Eurosport en þá var M. Schmacher nýliði. Alveg frá upphafi finnst mér M. Schumacher alltaf haft óbilandi sigurvilja. Það er alveg sama hver er að slást um heimsmeistaratilinn alltaf er M. Schmacher í þeim hópi. Er þetta neistinn sem M. Hakkinen er búinn að missa? Ég vona að keppnin verði spennandi það sem eftir er tímabilsins en hins vegar bendir allt til þess að þetta verði ár M. Schmacher og Ferrari!!!