El Nino Ég ætla mér að skrifa hér grein um El Nino Formúlunar. Hann var yngsti ökumaðurinn til að verða heimsmeistari og þaðan fékk hann El Nino nafnið. Hann varð þriðji yngsti ökumaðurinn inn í Formúluna og byrjaði hjá Minardi. Já auðvitað erum við að tala um Fernando Alonso Diaz.

Fernando fæddist í Oviedo á norður Spáni þann 29 Júlí 1981 sem gerir hann í dag 25 ára og 205 daga gamlan (19 febrúar 07). Móðir hans var vinnukona í stórverslun meðan faðir hans var sprengjusérfræðingur í námum. Alonso byrjaði í kartinu ungur að aldri. Þannig stóðu málin að faðir hans var körtuáhugamaður og byggði körtu handa systur Alonsos en hún var ekki með kappaksturseðlið í sér en sömu sögu mátti ekki segja um 3 ára bróðir hennar Fernando Alonso. Kappinn á kærustu eins og stendur og hún heitir Raquel del Rosario sem er ein af söngkonunum í hinni frábæru spænsku popphljómsveit El Sueno de Morfeo.

Fjölskyldan hans Alonsos var frekar fátæk svo þau settu upp ákveðið plan. Þau sáu hversu öflugur Fernando var á körtunni þannig að þau fóru með hann á mót á Spáni í von um að hann myndi vinna. Þetta tókst upp og Fernando fékk styrktaraðila. Hann varð fjórfaldur Spánarmeistari í körtuakstri eða þau árin 1993 – 1996 en hann var aðeins 12 ára gamall þegar hann vann sinn fyrsta titil. Hann gerði það gott næstu ár í körtuakstrinum og vakti áhuga Adrian Campos. Hann keppti fyrir hann í evrópskri Nissan mótarröð. Þar gerði hann gott og vann nokkrar keppnir fékk síðan að fara í Formúla 3000. Paul Stoddart sá hann síðan og ákvað að næla sér í kappan. Fernando Alonso varð þriðji yngsti ökumaður Formúlunar.

Hann keyrði vel fyrsta árið hjá Paul Stoddart og miðað við að þetta var hans fyrsta ár þá stóð hann sig frábærlega. Þótt hann hafi endað tímabilið með 0 stig stóð hann sig mun betur en félagi hans og náði 11 sætinu á Suzuka, þar var hann á undan mörgum betri bifreiðum og sýndi hæfni hans. Þess má geta að liðið var nánast gjaldþrota þegar Paul tók yfir það og hann eyddi miklum pening í að rétta úr skuldum á fyrirtækinu, við það varð Minardi bifreiðin arfaslök þetta árið.

Flavio Briatore var fljótastur að bregðast við og nældi sér í Alonso. Fernando varð prufuökumaður hjá liðinu í eitt ár og ók rosalega mikið sem sýndi hversu metnaðargjarn hann er. Flavio sá það og henti Button úr liðinu og fékk til sín El Nino. Fernando keppti með Jarno Trulli árið 2003. Hann náði með ótrúlegum hætti að landa fyrsta sæti í tímatökum í Malasíu. Þetta var fyrsta skiptið sem var keppt það og þetta var aðeins hans 19. tímataka. Í sinni 30. keppni vann hann sinn fyrsta sigur. Hann bætti met Fangios og varð yngsti ökumaður sögunnar að vinna Formúlu 1 keppni. Sá sigur kom í Ungverjalandi en hann náði pólnum og hélt fyrsta sætinu nokkuð örugglega í gegnum alla keppnina. Árið 2003 landaði kappinn 55 stigum og varð í sjötta sæti yfir keppni ökuþóra. Frábær árangur.

2004 var ekki verra ár. Þeir félagarnir byrjuðu saman en Jarno Trulli var síðan seinna á árinu rekin frá liðinu og hann gekk síðan á næsta ári við raðir Toyota. Alonso keyrði mjög vel. Þótt hann hafi ekki náð að landa sigri þá náði hann þriðja sætinu þrisvar sinnum og öðru sætinu einu sinni auk þess að ná pólnum í franska kappakstrinum. Hann skoraði fleiri stig þetta árið og fékk 59 kvikindi og hafnaði í fjórða sætinu yfir keppni ökumanna.

Giancarlo Fisichella kom til liðsins í stað Jarnos árið 2005. Árið byrjaði vel hjá Alonso og náði þriðja sætinu í Ástralíu. Eftir því fylgdu 3 sigrar og yfirburðarstaða eftir fyrstu 3 mótin. Frábær árangur hjá kappanum. Hann hélt svo uppteknum hætti næstu mót og stakk, Michael Schumacher sjöfaldann heimsmeistara, af. Hann var kominn með 59 stig eftir 7 keppnir meðan Michael var með 24. Möguleikar heimsmeistarans voru nánast útilokaðir. Kimi hélt þó ágætlega í hann en ekki nóg og Alonso varð yngsti heimsmeistari sögunnar í Formúlu 1. Það munaði 21. stigi á milli þeirra félagana.

2006 var öllu skemmtilegra en 2005. Ég held að það muni flest allir eftir þessu tímabili. En eftir mikla baráttu gegn Michael þá lék lánið við kappan og hann vann sinn annan heimsmeistaratitil. Frábær árangur að stoppa sigurgöngu Michaels og næla sér í tvo titla. Hann gekk svo eins og vonandi allir vita til McLaren. Ég spái honum góðs gengis í ár en ég held að McLaren bíllin muni ekki verða neitt ofur. Hann mun verða í öðru eða þriðja sætinu yfir ökuþóranan meðan Mclaren þurfi að sætta sig við þriðja sætið enn eina ferðina

Ég veit ekki hvort Alonso sé kallaður El Nino útaf stórum munni eða frábærum akstri. Hann er vissulega góður ökumaður og þessi grein er nokkuð hlutlaus um kappan. En samt sem áður þá þoli ég hann ekki og þykir hann hinn mesti hrokki. En þetta er bara mín skoðun og vona að ég hafi ekki móðgað neinn.

Heimildir:
www.wikipedia.org
www.fernandoalonso.com
mynd:
http://www.huelvainformacion.es/imagenes_noticias/0115_dep_falonso.jpg