Imola 1994

Í minningu um Roland Ratzenberger og Ayrton Senna da Silva, tveggja ökumanna létu lífið í San Marínó kappakstrinum 1994.

VIÐVÖRUN: sum atriði greinarinnar gætu vakið óhug lesenda.

Inngangur
Engum dylst sú áhætta sem ökumenn í kappakstri koma sér út í um leið og þeir byrja að keppa. Þeir sem endast eitthvað í kappakstri munu eflaust þurfa horfa upp á misalvarleg slys, en enn færri upp á banaslys.

Frá því að formleg heimsmeistarakeppni hófst í Formúlu 1 á Silverstone árið 1950 og fram til keppninnar á Imola 1994 höfðu 25 ökumenn dáið í Formúlu 1 kappakstri eða í tilraunaakstri á Formúlu 1 bílum. Auk þess höfðu yfir 20 áhorfendur látið lífið á Formúlu 1 keppnishelgi (þar af 14 í slysi á Monza 1961), 2 brautarverðir og 1 vélvirki.

Í síðasta skipti sem alheimur horfði upp á banaslys í Formúlu 1 var með dauða ítalska nýliðans Riccardo Paletti í Osella bifreið í kanadíska kappakstrinum 13. júní 1982 eftir aftanákeyrslu í upphaflega startinu. 2 mánuðum fyrr hafði Gilles Villeneuve, geysivinsæll kanadískur ökuþór hjá Ferrari liðinu, látið lífið í ljótu banaslysi eftir að hafa endastungið bílnum í tímatöku fyrir belgíska kappaksturinn.
Þrátt fyrir að liðin væru 12 ár frá því að þessi tvö banaslys höfðu orðið, nánast því í beinni útsendingu, þá hafði ítalski ökuþórinn Elio de Angelis dáið í tilraunaakstri á Paul Richards brautinni í Frakklandi 15. maí 1986, eftir að vængur brotnaði af Brabham bifreið hans og bíllinn endastungist yfir brautarvegg.
Því má með sanni segja að 8 ár væru liðin frá síðasta banaslysi í Formúlu 1, og 12 ár síðan fólk horfði upp á slíkan atburð í sjónvarpi.

San Marínó kappaksturinn 1994 – Enzo e Dino Ferrari brautin í Imola, Ítalíu
San Marínó kappaksturinn var 3. keppni tímabilsins 1994, og 1. keppnin í Evrópu á því tímabili. Miklar breytingar urðu eftir 1993 tímabilið; frakkinn Alain Prost hafði hætt keppni í Formúlunni eftir að hafa unnið sinn 4. heimsmeistaratitil, Ayrton Senna hafði fært sig frá McLaren til Williams, og mikið af hjálparbúnaði úr formúlubílunum (þ.m.t. spólvörn og hemlalæsivörn). Ungur þýskur ökumaður, Michael Schumacher, hjá Benetton, hafði tekið forystuhlutverkið, með sigrum í tveimur fyrstu keppnunum, og hafði því 20 stig, 13 stigum meira en Rubens Barrichello á Jordan. Ayrton Senna hafði ekki náð stigum enn og var harðákveðinn í að breyting yrði þar á í San Marínó.

Föstudagsæfingin – Barrichello slasast
Keppnishelgin á Imola hófst 29. apríl með föstudagsæfingunni. Segja má að forsmekkurinn að helginni hafi komið strax á æfingunni. Rubens Barrichello var á fleygiferð á lokakafla brautarinnar á Jordan bíl sínum. Hann hafði farið full hratt í beygju, og brautarkanturinn varð allt í einu að stökkpalli, og Barrichello sveif í loftinu að dekkjaveggnum og klessti á hann, sem orsakaði nokkrar veltur og endaði á hvolfi. Menn höfðu miklar áhyggjur af Barrichello, þar sem að höfuð hans lá út á hlið þegar bílnum hans var velt við, en hann hafði rotast í slysinu. Hann slapp með heilahristing og brotið nef, en var frá þar sem eftir var helgar, þar sem hann hafði ekki náð að setja tíma. Slysið fékk mjög á Ayrton Senna, en Barrichello var nokkurs konar ,,lærlingur” hans.

Myndskot af slysi Barrichello:
[youtube]http://www.youtube.com/watch?v=XSI27en56tg

Mönnum fannst nóg um slys Barrichello. En ekki var allt búið.

Tímatakan – Ratzenberger deyr
20 mínútur liðnar af tímatökunni á laugardeginum. Austurríski ökuþórinn Roland Ratzenberger, 34 ára nýliði hjá Simtek liðinu, fer út á brautina til að setja góðan tíma. Í einum hringnum fór Ratzenberger útaf í sandgryfju og skemmdi framvænginn sinn. Ratzenberger lét það ekki á sig fá heldur hélt áfram. Það reyndist honum dýrkeypt. Líkur eru til þess að bilaður framvængurinn hafi ollið hörðum útafakstri Ratzenberger í næsta hring. Vettvangurinn er Villeneuve kaflinn. Ratzenberger missti stjórn á bíl sínum á 306 km hraða og klessir á steinvegg meðfram brautinni. Myndir af slysinu sjálfu eru að skornum skammti, aðeins tvö sjónarhorn, en á hinni opinberu myndatöku varð slysið í hvarfi. Það eina sem sést á henni er að Ratzenberger flýgur útaf, en svo sjáum við ekkert annað en fljúgandi brak frá bílnum, þangað til Ratzenberger kemur rúllandi út fyrir hornið og staðnæmist í miðri beygjunni á brautinni. Bíllinn var eins og hann hefði lent í loftárás. Vinstri hliðin var í raun og veru farin. En verst var þó að í myndbandinu sést greinilega hvar höfuðið á Ratzenberger sveiflast til og frá eins og skopparabolti. Og stór rifa hafði opnast inn í ökumannsbúrið. Tilraunir læknaliðsins til að bjarga lífi Ratzenberger reyndust árangurslausar. Hann hafði látist samstundis þegar hann hálsbrotnaði í þessum gífurlega árekstri. Fyrsta banaslysið á Formúlu 1 mótshelgi í tæp 12 ár var staðreynd. Keppnin daginn eftir hefði orðið sú önnur sem hann hefði tekið þátt í, en rétt áður en slysið átti sér stað, náði hann að setja tíma sem hefði dugað honum til að taka þátt í kappakstrinum.
Myndskot af slysi Ratzenberger:
Hið opinbera myndskot:

[youtube]http://www.youtube.com/watch?v=iYf1wDCIsIo
Myndskot tekið af áhorfanda:
[youtube]http://www.youtube.com/watch?v=rd4vxEAG880

Ayrton Senna, sem náði ráspól, íhugaði alvarlega að hætta við að keppa, þessi atburður fékk mjög á hann. En eftir að hafa hugsað sig um ákvað hann þrátt fyrir það að taka þátt.

Úrslit tímatökunnar voru þessi:
1. Ayrton Senna (Williams Renault)
2. Michael Schumacher (Benetton Ford)
3. Gerhard Berger (Ferrari)
4. Damon Hill (Williams Renault)
5. JJ Lehto (Benetton Ford)
6. Nicola Larini (Ferrari)
7. Heinz-Harald Frentzen (Sauber Mercedes)
8. Mika Häkkinen (McLaren Peugeot)
9. Ukyo Katayama (Tyrrell Yamaha)
10. Karl Wendlinger (Sauber Mercedes)
11. Gianni Morbidelli (Footwork Ford)
12. Mark Blundell (Tyrrell Yamaha)
13. Martin Brundle (McLaren Peugoet)
14. Pierluigi Martini (Minardi Ford)
15. Michele Alboreto (Minardi Ford)
16. Christian Fittipaldi (Footwork Ford)
17. Eric Bernard (Ligier Renault)
18. Érik Comas (Larrousse Ford)
19. Olivier Panis (Ligier Renault)
20. Johnny Herbert (Lotus Mügen-Honda)
21. Andrea de Cesaris (Jordan Hart)
22. Pedro Lamy (Lotus Mügen-Honda)
23. Olivier Beretta (Larrousse Ford)
24. David Brabham (Simtek Ford)
25. Bertrand Gachot (Pacific Ilmor)
Hefur ekki keppni
26. Ronald Ratzenberger (Simtek Ford)
Náðu ekki tímatöku
27. Paul Belmondo (Pacific Ilmor)
28. Rubens Barrichello (Jordan Hart) [enginn tími]

Samtök Formúlu 1 ökumanna endurreist
Að morgni sunnudags hittust allir ökumenn Formúlu 1 og fóru yfir ástandið. Meðal þess sem fram kom á fundinum var endurreisn einhvers konar öryggisráðs ökumanna, sem í dag heita Samtök Formúlu 1 ökumanna, en það hafði ekki verið starfrækt frá því í FISA-FOCA stríðinu 1982. Var Ayrton Senna boðið að gerast formaður sambandsins sem reynslumesta ökumanninum sem þá keppti. Gerhard Berger og Michael Schumacher voru einnig kosnir.

Kappaksturinn hefst – árekstur Lehto og Lamy
Kl. 14 að staðartíma fór keppnin að stað. Strax í startinu varð slys, en JJ Lehto (liðsfélagi Schumacher hjá Benetton), drap á sér í ræsingunni og Pedro Lamy (Lotus) náði ekki að forðast árekstur við Lehto. Þó svo báðir ökumennirnir sluppu ómeiddir, þá urðu nokkrir áhorfendur fyrir braki frá árekstrinum og slösuðust.
Myndskot af árekstrinum:
[youtube]http://www.youtube.com/watch?v=Eg28swY3qXo

Brautin var öll í braki vegna slyssins, en í staðinn fyrir að rauðflagga keppnina, þá settu menn öryggisbílinn út í staðinn. Var hann úti á brautinni í 5 hringi.

Hringur 7 – banaslys Senna
En á 7. hring varð slys. Ayrton Senna, sem hafði verið í forystu frá upphafi með Michael Schumacher á hælunum, nær ekki Tamburello beygjunni, skrunar beint útaf, og klessir á 218 km hraða á vegginn. Fyrst héldu menn að slysið yrði aldrei jafn slæmt eins áður hafði gerst í þessari beygju, en þar höfðu Nelson Piquet og Gerhard Berger farið útaf og sloppið lifandi með ótrúlegum hætti. En eftir því sem að sekúndunum fjölgaði frá því slysið átti sér stað urðu menn áhyggjufyllri, og þegar að keppnin var að fullu stöðvuð, þá þótti ljóst að ekki væri allt í lagi með Senna. Hann einfaldlega hreyfði sig ekki. Alheimur stóð á öndinni, þeir horfðu á þetta gerast í beinni útsendingu. Í hálftíma horfðu menn á læknaliðið bjástra við Senna, fljótlega kom þyrla á staðinn og loks var Senna fluttur til Bologna á spítala. Kl. 18:40 að staðartíma var hann úrskurðaður að fullu látinn, en jafnframt var ljóst að hann hafði verið heiladauður allt frá því hann klessti á vegginn. Orsökin voru þau að hluti af fjöðrunarbúnaðinum sem brotnaði slóst í hjálminn hans og orsakaði mikla höfuðáverka. Ástæða þess af hverju Senna fór útaf er enn sveipað dulúð. Einhverjir segja að niðurþrýstingur bílsins hafi orðið of mikill, en flestir hallast þó á þá skýringu að stýrisásinn hafi bilað (uppspretta langra réttarhalda yfir Adrian Newey og Patrick Head, tæknimönnum hjá Williams).
Eitt af fjölmörgum myndskotum af útafakstrinum:
[youtube]http://www.youtube.com/watch?v=W_0VEAlPTG4
Annað myndskot:
[youtube]http://www.youtube.com/watch?v=_bYJqhg4NoU

Érik Comas
Meðan á björgunaraðgerðunum stóð, átti sér stað mjög umdeilt atvik. Annar ökumaður Larrousse liðsins, Frakkinn Érik Comas, brunar út á brautina, þegar brautin er “lokuð” vegna rauðra flagga, og á vettvang slyssins, þar sem hann rétt sleppur við að keyra á bílana, fólkið og þyrluna sem þar voru.
Myndskot af atvikinu:
[youtube]http://www.youtube.com/watch?v=t5xJd4597Uk

Þegar það atvik er skoðað, er þarft að gera smá útúrdúr hér til að skoða tengsl Comas og Senna. Þegar að Comas lenti í hörðum útafakstri á Spa brautinni á föstudagsæfingunni, sem orsakaði það að hann rotaðist í 17 mínútur. Senna, þá á McLaren, leggur út í kanti og hleypur í átt að Comas, jafnvel þó enn væru bílar á fleygiferð framhjá. Veitti hann Senna fyrstu skyndihjálp (koma í veg fyrir að tungan hans hrykki ofan í kok), þangað til læknaliðið kom á staðinn.
Myndskot af slysi Comas:
[youtube]http://www.youtube.com/watch?v=zZfd_7MQNLI

Hvort þetta hafi verið áræðni Comas í að komast á staðinn til að leggja sitt af mörkum til að hjálpa til við björgunina, eða hvort þetta hafi einfaldlega verið slæm mistök Larrousse liðsins ætla ég ekki að taka afstöðu til í þessari grein. En með vísan í framangreindan útúrdúr, þá er ekki hægt að útiloka að Comas hafi viljað leggja sitt af mörkum, þó á rangan hátt hafi verið. Að keyra á Formúlubíl útaf viðgerðarsvæðinu, meðan brautin var lokuð, er óforsvaranlegt, og má ætla að Comas og/eða Larrousse liðið hafi gert afar stór mistök. Þeim var þó ekki refsað fyrir atvikið, svo vitað sé til.
Comas dró sig úr kappakstrinum eftir slysið, og fyrir lokamótið 1994 sagði hann endanlega skilið við Formúlu 1.

Keppnin endurræst
Þar sem engar fréttir höfðu borist af ástandi Ayrton Senna, þá andmæltu ökumenn ekki þegar að ákveðið var að ræsa keppnina að nýju. Var keppnin ræst kl. 14:57 (st.t.).

Rásröðin var miðuð við stöðuna eftir 5. hring, þar sem Schumacher hafði ekið 7. hringinn þegar að keppnin var rauðflögguð, og skv. reglum formúlunnar um endurræsingar, þá var rásröðin miðuð stöðuna 2 hringjum fyrr.

Michael Schumacher leiddi mestalla keppnina til loka, að frátöldum nokkrum hringjum, sem Nicola Larini leiddi (Larini var ítalskur ökumaður sem í þessu tilfelli var að leysa af Frakkann Jean Alesi, sem var meiddur).

Gerhard Berger hætti á 17. hring, að því talið var vegna vandamála með afturdekk, en í raun og veru hafði hann fengið sig fullsaddan af kappakstri dagsins, bæði sem vinur Senna og að horfa upp á Senna klessukeyra bílinn sinn í sömu beygju og hann hafði sjálfur farið útaf í 1989.

Hringur 44 – Alboreto týnir afturdekkinu
Á hring 44 lenti Ítalinn Michele Alboreto (sem var að keppa sitt síðasta tímabil á Minardi), í því að þegar hann kom úr þjónustuhléi, þá var hægra afturdekk ekki betur fest en það að hann missti dekkið undan bílnum, sem lenti inn í Ferrari hópinn og slasaði a.m.k. tvo.

Eftir þetta gerðist fátt.

Úrslit kappakstursins urðu þessi:
1. Michael Schumacher (Benetton Ford) 1 klst. 28 mín. 29. sek. – 58 hringir
2. Nicola Larini (Ferrari) +54 sek.
3. Mika Häkkinen (McLaren Peugeot) +1 mín. 10 sek.
4. Karl Wendlinger (Sauber Mercedes) +1 mín. 13 sek.
5. Ukyo Katayama (Tyrrell Yamaha) +1 hringur
6. Damon Hill (Williams Renault) +1 hringur
7. Heinz-Harald Frentzen (Sauber Mercedes) +1 hringur
8. Martin Brundle (McLaren Peugeot) +1 hringur
9. Mark Blundell (Tyrrell Yamaha) +2 hringir
10. Johnny Herbert (Lotus Mügen-Honda) +2 hringir
11. Olivier Panis (Ligier Renault) +2 hringir
12. Eric Bernard (Ligier Renault) +2 hringir
13. Christian Fittipaldi (Footwork Ford) +4 hringir (féll úr leik: bremsur)
Eftirtaldir féllu úr leik:
* Andrea de Cesaris (Jordan Hart) 50. hringur - óhapp
* Michele Alboreto (Minardi Ford) 45. hringur – laust afturdekk
* Gianni Morbidelli (Footwork Ford) 41. hringur – vél
* Pierluigi Martini (Minardi Ford) 38. hringur – snérist útaf
* David Brabham (Simtek Ford) 28. hringur – óhapp
* Bertrand Gachot (Pacific Ilmor) 24. hringur – olíuþrýstingur
* Olivier Beretta (Larrousse Ford) 18. hringur – vél
* Gerhard Berger (Ferrari) 17. hringur – hætti keppni
* Ayrton Senna (Williams Renault) 6. hringur – banaslys
* Érik Comas (Larrousse Ford) 6. hringur – óhapp
* Pedro Lamy (Lotus Mügen-Honda) 1. hringur – árekstur við Lehto
* JJ Lehto (Benetton Ford) 1. hringur – árekstur við Lamy
Eftirtaldir hófu ekki keppni:
* Ronald Ratzenberger (Simtek Ford) - banaslys
* Paul Belmondo (Pacific Ilmor) – náði ekki tímatöku
* Rubens Barrichello (Jordan Hart) – slasaður / náði ekki tímatöku

Verðlaunaafhendingin og blaðamannafundurinn
[youtube]http://www.youtube.com/watch?v=t2mqzX0-4ck

Mjög gott yfirlitsmyndband yfir atburði helgarinnar
[youtube]http://www.youtube.com/watch?v=RRM5LUT_xbY

EFTIRMÁLAR

* Eftir að Karl Wendlinger stórslasaðist á æfingu fyrir mónakóska kappaksturinn ofan á atburðina sem gerðust á Imola, þá var ákveðið að herða allar öryggisreglur til muna. T.d. að setja hlykki á margar brautir.
Myndskot af slysi Karl Wendlinger:
[youtube]http://www.youtube.com/watch?v=S49hQrWrqo0&NR

*Brautinni á Imola var gerbreytt; Tamburello og Villeneuve beygjunum var breytt í hlykkbeygjur, Acqui Minerali hornið var sniðið af, og Variante Bassa beygjunni var breytt.

*Allar reglur um byggingu og gerð formúlubíla var hert fyrir árið 1995. Það hafði það í för með sér að bílaframleiðendurnir þurftu að hanna bílana algerlega frá grunni. Slagrými vélanna var minnkað úr 3,5 l niður í 3,0 l.

*Þó svo Ratzenberger og Senna hafi verið síðustu ökumennirnir til að láta lífið í Formúlu 1 bíl (þegar þetta er skrifað, 27.11.2006), þá hafa 2 brautarverðir látið lífið. Annar brautarvörðurinn lést þegar hann varð fyrir braki eftir fjöldaárekstur á 1. hring ítalska kappakstursins árið 2000. Hinn brautarvörðurinn lét lífið eftir sams konar atvik eftir að Jacques Villeneuve keyrði aftan á Ralf Schumacher og flaug utan í vegg í ástralska kappakstrinum 2001. Hættan er ekki liðin hjá.


Ég hef ekki tíma annars til að fara nánar í saumana á afleiðingum atburðanna í Imola, en ég vonast til þess að hugaður Hugari taki það að sér.

Ég vona að þið hafið eitthvað gagn af þessari reifun minni af atburðunum 29. apríl til 1. maí.

Þökk fyrir!


Heimildir:
GrandPrix.com. Grand Prix Results: San Marino GP 1994. Sótt 26. nóv. 2006 af http://www.grandprix.com/gpe/rr551.html.
Nigel Roebuck, 1999. Barist um bikarinn. Ólafur Bjarni Guðnason þýddi. Reykjavík, Iðunn.
Wikipedia. Ayrton Senna. Sótt 27. nóv. 2006 af http://en.wikipedia.org/wiki/Ayrton_Senna.
Wikipedia. Death of Ayrton Senna. Sótt 27. nóv. 2006 af http://en.wikipedia.org/wiki/Death_of_Ayrton_Senna.
Wikipedia. Roland Ratzenberger. Sótt 25. nóv. 2006 af http://en.wikipedia.org/wiki/Roland_Ratzenberger.
Wikipedia. 1994 San Marino Grand Prix. Sótt 27. nóv. 2006 af http://en.wikipedia.org/wiki/1994_San_Marino_Grand_Prix.

Öll myndbönd sem sett voru í greinina eru öll upprunnin af YouTube. Uppruni þeirra fæst með því að tvísmella á myndböndin.

Með kveðju, Ultravox