Montoya vann sinn fyrsta sigur
Juan Pablo Montoya, ökumaður Williams-liðsins í Formúlu 1, vann sinn fyrsta sigur í greininni á Monza-brautinni á Ítalíu í dag. Annar varð Rubens barichello, Ferrari, og þriðji Ralf Schumacher á Williams. Keppnin einkenndist af mörgum viðgerðahléum á ótrúlegustu tímum og Barichello og Schumacher yngri börðust hart um annað sætið lengi vel. Heimsmeistarinn Michael Schumacher ók frekar varlega á hans mælikvarða enda lýsti hann því yfir fyrir keppnina að hann færi í hana gegn vilja sínum eftir slysið sem Alex Zanardi lenti í í gær. Eftir að ökumenn höfðu samþykkt að taka ekki fram úr í beygjunum í upphafi keppninnar varð ekkert úr því þar sem eigendurnir skipuðu mönnum að aka af fullum krafti. Það fór síðan svo að Jensen Button reyndi framúrakstur í fyrstu beygju og lenti utan í Jarno Trulli sem fór útaf. Mika Häkkinen og David Coultahard þurftu báðir að hætta keppni vegna vélarbilunar og því fer McLaren-liðið án stiga frá Ítalíu!