Michael Schumacher íhugaði að hætta kappakstri í kjölfar banaslyssins í Monza fyrra sunnudag. Hann segist einnig hafa íhugað að hætta eftir að Ayrton Senna fórst í upphafi kappakstursins í San Marínó 1994.

„Hugsunin sótti mjög á mig. Ég held menn hugleiði slíkt við alvarlegar aðstæður sem þessar. Ég velti því fyrir mér að hætta eftir að Ayrton Senna dó 1994 og ég hugleiddi það aftur eftir keppnina í Monza,“ segir Schumacher.

„Tilhugsunin getur varað eina mínútu, viku eða mánuð en ég vék henni frá mér því ég nýt starfsins. Til þess að geta lagt sig fram verður maður að njóta þess sem maður gerir,” bætir hann við og segist nú einbeita sér að slagnum við Mika Häkkinen um heimsmeistaratitil ökuþóra.