Michael Schumacher eyðilagði keppnisbíl sinn í afar hörðum árekstri við bílprófanir í Mugellobrautinni í dag en mun hins vegar hafa sloppið ómeiddur sjálfur.

Þetta er í annað sinn á röskum mánuði sem heimsmeistarinn í Formúlu-1 lendir í harkalegri ákeyrlsu. Í dag mun afturvængur hafa flogið af bíl hans á 300 kílómetra hraða með þeim afleiðingum að Schumacher missti vald á Ferraribílnum sem þaut yfir sandgryfju og skall á öryggisvegg.

Schumacher steig upp úr bílnum ómeiddur að sögn talsmanns Ferrari en bíllinn skemmdist það mikið að ekki er hægt að gera við hann. Henti óhappið í fyrstu beygju Mugellobrautarinnar.

Vængurinn brotnaði af bílnum rétt í þann mund sem Schumacher hugðist byrja að bremsa inn að beygjunni. Var þetta fyrsti æfingadagur Schumachers eftir að hann innbyrti heimsmeistaratitil ökuþóra í Ungverjalandi sl. sunnudag. Ráðgert var að hann yrði einnig við tilraunaakstur í Mugello á morgun, föstudag.

Schumacher slapp einnig ómeiddur úr hörðum árekstri við bílprófanir í Monza fyrir um fimm vikum er botninn í Ferraribílnum brotnaði.