Það er ljóst að hitinn í Barhain tók sinn toll af vélunum því nokkur lið tóku þá ákvörðun, viljandi eða af nauðsyn, að skipta um vélar í keppnisbílum sínum. Þeirra á meðal voru Ferrari, Red Bull og BAR. Einhverjir aðrir skiptu líka um vélar í sínum bílum vegna bilanna í síðustu keppni og voru þess vegna ekki færðir aftur um 10 sæti. Þetta setti vissulega sinn svip á tímatökurnar, þar sem nokkrir ökumenn voru ekki að keppast að neinu viti um efstu sætin, sem þeir væru að berjast um, ef allt væri með felldu. Massa hættir til dæmis að keyra eftir fyrstu lotuna.

Önnur stór nöfn voru heldur ekki með efstu nöfnum eftir tímatökurnar, ef frá er talinn Fisichella. Hann sýndi góðan akstur og tók verðskuldaðan ráspól á undan Button og nýliðanum Rosberg. Schumacher náði 4. sætinu en vélaskiptin skyggðu dálítið á þann árangur. Webber sýndi að BMW er ekki með einn, heldur tvo góða ökumenn því hann náði 5. sætinu og liðið því með ökumann á 2. og 3. ráslínu. McLaren menn voru í 6. og 7. sæti, þar sem Montoya hafði betur í slagnum við Kimi. Alonso endaði síðan í 8. sæti vegna mistaka Renault liðsins í bensín áfyllingu fyrir síðustu lotuna í tímatökunum. Tókst þeim ekki betur upp en svo að þeir tvífylltu á bílinn og var hann því á tvöfallt þyngri bíl en áætlunin sagði til um.


Á keppnisdaginn var talað um að líkur væru á rigningu þegar aðeins væri liðið á keppnina, en það er nú ekki hægt að segja að neitt hafi sést til hennar. Og þessi keppni átti eftir að draga dilk á eftir sér, svo ekki sé meira sagt. Strax á fyrsta hring lentu Raikkonen og Klien í samstuði í fyrstu beygjunum og Raikkonen féll úr keppni. Klien náði að halda áfram en féll síðan úr keppni nokkrum hringjum seinna.

Gengi Williams var ekki jafn glæsilegt og allir höfðu vonað, eftir góðan árangur í Barhain. Hvorugur bíllinn komst í mark, líkt og Red Bull, sem missti líka báða sína bíla. Ferrari náði að klára í 5. og 6. sæti og vakti það mikla athygli að Massa kom í mark á undan Schumacher. Það heyrðist vel á lýsendunum, að þeir áttu von á því að liðskipunum yrði beitt til að Schumacher kæmi á undan í mark, en sú varð ekki raunin. Button fylgdi eftir góðum árangri sínum í Barhain og kláraði í 3. sæti á undan Montoya.

Ótvíræðir sigurvegarar voru þó Renault menn en þeir náðu sínum fyrsta tvöfalda sigri í meira en 20 ár. Fisichella ók eins og hann væri einn á brautinni, og hélt forystunni frá upphafi til enda. Alonso átti að vissu leyti aldrei möguleika á sigrinum, alla vega ekki upp á eigin spýtur en annað sætið er engu að síður góður árangur.

Renault trónir nú á toppnum í keppni bílasmiða og Alonso er efstur ökumanna. Schumacher og Button eru jafnir í 2. og 3. sæti og Fisichella er rétt á eftir þeim í 4. sæti. Ferrari er síðan í 2.-3. sæti ásamt McLaren. Honda er síðan í 4. sæti í keppni bílasmiða. Það er því ljóst að við megum eiga von á spennandi tímabili, eða það er alla vega það sem við viljum.


Mál málanna er samt vængurinn hjá Ferrari. Það var mikið sýnt úr myndavélinni, sem er staðsett á trjónunni og beinir svo heppilega að þeim stað, þar sem vængurinn tengist við trjónuna. Þar var hægt að sjá aftur og aftur umdeilda hreyfingu vængjanna út frá trjónunni. Fyrir keppnina voru 8 lið búin að gera athugasemd við vængina en af öryggis-ástæðum var Ferrari ekki gert að skipta um væng fyrir keppnina.

Eftir keppnina var hins vegar komið að þætti FIA í málinu. Eftir einhverja umhugsun ákváðu þeir að skikka Ferrari, og tvö önnur lið, til að breyta afturvængjum sínum, og Ferrari þarf að breyta framvæng sínum. Hin liðin tvö, McLaren og BMW, voru meðal þeirra liða sem skrifuðu undir athugasemdalistann. Nánast hver einasta spjallsíða, sem fjallar um formúlu, er yfirfull af heitum umræðum um þetta atvik, og hvort Ferrari sé ólöglegt eður ei. Síðan er spurning hvað liðin taka til bragðs fyrir Ástralíu kappaksturinn. McLaren og BMW eru búin að gefa það út að þau ætli sér að breyta vængjunum en Ferrari hefur enn ekki gefið frá sér neina yfirlýsingu.
Stupid men are often capable of things the clever would not dare to contemplate…