Jæja, jæja, jæja.
Þá er nú fyrsta formúluhelgin að baki og ýmislegt sem gekk á. Renault og Ferrari sýndu styrk sinn og McLaren lenti enn og aftur í vandræðum. Williams og Red Bull sýndu góða takta en Toyota var í tómu tjóni, ef svo má að orði komast.

Það sem fyrst þarf að minnast á er nýja tímatökukerfið. Það er óhætt að segja að þessi útfærsla er mun skemmtilegri og áhorfendavænni en fyrra kerfi. Nú er alltaf eitthvað að gerast og mistök eins geta haft áhrif á frammistöðu annara, eins og sást þegar Raikkonen lenti í óhappi. Tímatakan var stöðvuð og þá urðu allir að fara út í einu til að ná tíma fyrir lok lotunnar, og þvældust hver fyrir öðrum. Það að hafa tvær 15 mínútna lotur og síðan 30 mínútna lotu tryggir að það er nánast alltaf bíll í brautinni og þeir sem borga sig inn á tímatökurnar og keppnina eru að fá eitthvað fyrir peninginn. Gallinn fyrir okkur sjónvarpsáhorfendur er að það er erfiðara að hafa heildarsýn yfir hvernig staðan er nákvæmlega á hverjum tímapunkti. Þetta er samt mun betra en fyrra kerfi og mætti alveg halda því áfram. Úrslit tímatökunnar hlýjaði mörgum Ferrari áhangendum um hjartað og gaman að sjá hvað þeir komu sterkir undan vetrinum. Þeir hafa ekki verið með tvöfaldan ráspól síðan í Ungverjalandi 2004. Button sýndi líka að Honda á eftir að berjast um titilinn við Ferrari og Renault, eins og McLaren. Þeirra óheppni var þó óhapp sem Raikkonen lenti í strax í fyrstu lotu, þegar afturvængurinn brotnaði af og hægra afturdekkið bókstaflega dróst á eftir honum, þegar hann hélt inn á þjónustusvæðið. Ein enn vonbrigðin fyrir Raikkonen og ekki fær McLaren prik fyrir þetta í kladdann hjá Kimi.

Keppnin var að sama skapi spennandi og gaman að sjá dekkjaskiptin komin inn aftur. Þetta vekur upp gamlar minningar og hefði aldrei átt að taka út. Ferrari virðist vera komið til baka og sýndi gamalkunna takta. Alonso hóf titilvörn sína eins og best verður á kosið, með vel útfærðu þjónustuhléi sem leiddi af sér glæstan sigur. Williams stóð sig frábærlega og kom mörgum vel á óvart hve vel Nico Rosberg stóð sig í sinni fyrstu keppni, og náði meðal annars hraðasta hring. Maður keppninnar er þó Kimi Raikkonen sem vann sig upp úr síðasta sæti upp í það þriðja. Maður spyr sig hvar hann hefði endar ef hann hefði ekki lenti í óhappinu í tímatökunum. Það er því óhætt að segja að þetta tímabil mun koma til með að vera bæði skemmtilegra áhorfnar, með breyttum reglum, og meiri spenna, þar sem liðin eru nú mun jafnari en í fyrra.

Eitt lið verður þó að minnast á í lokin og það er Toyota. Þeirra árangur er vonbrigði fyrir liðið sjálf og aðdáendur alls staðar. Í tímatökunum komust þeir ekki upp úr fyrstu lotunni og þurftu því að ræsa með öftustu mönnum. Ekki tók betra við í keppninni því þeir enduðu í 14. og 16. sæti sem verður að teljast mikil vonbrigði miðað við árangur þeirra á síðasta tímabili. Hver ástæðan fyrir þessum slæma árangri er erfitt að segja. Sumir telja að bíllinn henti ekki Brigdestone dekkjunum, og Toyota ætlar að koma með nýjan bíl sem verður hannaður með Bridgestone dekkin í huga. Williams, hitt liðið sem skipti af Michelin yfir á Brigdestone, virtist ekki eiga í neinum vandræðum með umskiptin, og náði hraðasta hring í keppninni. Það er því ljóst að Toyota á mikið verk fyrir höndum að komast á sama stig og keppinautarnir, ætli þeir sér að eiga möguleika á titlinum.
Stupid men are often capable of things the clever would not dare to contemplate…