Nú er rétt um mánuður í fyrsta mótið í Barhain og ekki laust við að spenna sé farin að segja til sín, enda bendir allt til þess að spennandi tímabil sé framundan. Þess vegna ákvað ég að koma með mitt álit á því hvernig liðin og ökumennirnir eigi eftir að standa sig. Ég tek það fram að röðin á liðunum fer eftir lokastöðu í keppni bílasmiða á síðasta tímabili.

Renault
Af því sem fram hefur komið frá æfingum og öðru í kringum liðið, er ekki við öðru að búast en að þeir komi sterkir undan vetrinum. Ökumennirnir eru, eins og í fyrra, Fernando Alonso, núverandi heimsmeistari, og Giancarlo Fisichella. Renault hefur titla að verja og ólíklegt að þeir séu tilbúnir að láta þá af hendi svo glatt, og ákvað að halda sig við Michelin í þeirri baráttu. Alonso hefur verið öflugur á æfingum og oftast verið í hópi hröðustu ökumanna. Hann ætlar líka að sanna það að skiptin yfir til McLaren á næsta tímabili hafi ekki áhrif á framistöðu hans í ár. Fisichella hefur líka harma að hefna en árangur hans var í slakara lagi, ef miðað er við framistöðu Alonso. Síðan er ekki ólíklegt að Fisichella finnist að liðið ætti að sýna honum meiri stuðning núna, þar sem hann verður kyrr hjá liðinu en Alonso fer. Alla vega eins og staðan er núna. Eitt er víst, að Renault liðið, og ökumenn þess, ætla sér að sýna að þeir eru komnir til að vera í hópi þeirra bestu.

McLaren
Miðað við það sem kom fyrir McLaren liðið á síðasta tímabili, verður það að teljast nokkuð gott að enda í öðru sæti í keppni bílasmiða. Ökumenn liðsins eru, líkt og í fyrra, Kimi Räikkönen og Juan Pablo Montoya, en það verður breyting þar á næsta ári. Alonso kemur inn og þá fer annar þeirra burt frá liðinu. Hvor þeirra það verður er erfitt að spá en víst er að hvorugur ætlar að gefa eftir á komandi tímabili. Æfingarnar hafa verið brösugar hjá liðinu og stöðugar bilanir að hrjá þá. Þeir segjast vera búnir að koma í veg fyrir vélavandræðin með því að smíða nýja vél, nú er bara að sjá hvað þeir geta boðið upp á fyrir tímabilið. Hvort dekkjavandræði síðasta árs verða að hrekkja þá, verður að koma í ljós, og betra fyrir Michelin að standa sig.

Ferrari
Eftir slakt tímabil, á Ferrari mælikvarða, vill liðið ekkert annað en að vinna aftur titlana tvo og sanna að þeir eru enn í hópi þeirra bestu. Michael Schumacher er enn hjá liðinu enda væri það stærsta fréttin í heimi formúlunnar, að hann væri að skipta um lið. Sú breyting hefur samt verið gerð að Rubens Barrichello gekk til liðs við Honda og Felipe Massa kom til Ferrari. Hvort sú breyting verður til hins betra eða ekki, kemur í ljós, en Massa þekkir ágætlega til hjá Ferrari, þar sem hann var þróunarökumaður hjá þeim árið 2003. Liðið hefur verið að gera góða hluti á æfingum og virðast halda í við keppinautana, ólíkt því sem var í fyrra, sem er væntanlega mikill léttir fyrir þá. Það virðist sem hlutirnir ætli að smella betur núna, en í fyrra, og eru Bridgestone dekkin engin undantekning á þessu tímabili.

Toyota
Liðið var að standa sig vel á síðasta ári og ætla sér að stefna hátt núna. Ef mig minnir rétt var stefnan að sigra Ferrari. Ralf Schumacher og Jarno Trulli eru enn ökumenn liðsins. Helsta breytingin er að Toyota er núna komið á Bridgestone dekk, en var á Michelin. Þeir hafa ekki verið efstir á æfingum en alltaf í efri hlutanum þannig að það er erfitt að afskrifa þá þegar kemur að keppnunum.

Williams
Liðið heitir nú bara Williams eftir að BMW hætti samstarfi við þá og flutti sig yfir til Sauber. Þeir voru að standa sig ágætlega á síðasta tímabili, lentu reyndar í dekkjavandræðum í sumum mótum en ætla sér að bæta sig núna. Mark Webber er enn ökurmaður hjá liðinu en Niko Rosberg er hinn ökumaðurinn, í stað Nick Heidfeld. Það er hætt við því að allra augu beinist að Rosberg og ljóst að hann þarf að standa undir miklum væntingum, eins og flestir þeir sem fylgja í fótspor foreldra sinna. Williams er annað lið sem skipti frá Michelin yfir í Bridgestone.

Honda
Þeir keyptu BAR liðið, sem heitir núna Honda. Þeir ætla sér stóra hluti á þessu tímabili, og ber þar hæst að nefna fyrsta sigurinn. BAR náði ekki þeim árangri að standa efstir á palli. Jenson Button er enn hjá liðinu og vill ólmur ná sínum fyrsta sigri. Hinn ökurmaðurinn er Rubens Barrichello, sem ákvað að yfirgefa Ferrari, og óhætt að segja að Honda bindur miklar væntingar til hans, vegna þekkingar hans og árangurs. Hvort þeim takist þetta verður að koma í ljós þegar tímabilið hefst. Honda ákvað að halda sig við Michelin dekkin þar sem þau hafa reynst þeim vel hingað til.

Red Bull
Liðið hefur komið mikið á óvart frá því að þeir hófu keppni í formúlu 1. Ökumennirnir eru David Coulthard og Christian Klien. Aðalmarkmið Red Bull á þessu tímabili er að sigra Ferrari, vegna þess að þeir skiptu frá Cosworth yfir í Ferrari vélar. Þeir eru eitt af liðunum sem ákváðu að halda sig við Michelin. Þetta er lið sem getur gert góða hluti.

BMW Sauber
Sauber ákvað að hætta samstarfi við Ferrari og nota BMW vélar, eftir samningaviðræður við BMW um yfirtöku á liðinu. Sauber var ekki að standa sig neitt gífurlega vel á síðasta tímabili og hvort ný vél komi til með að breyta því er erfitt að segja til um. Þeir ákváðu líka að halda sig á Michelin dekkjum. Ökumennirnir Jacques Villeneuve and Nick Heidfeld eru hjá liðinu líkt og í fyrra.

MF1
MF1, eða Jordan, eins og liðið hét áður, hefur gefið það út að þeir ætli að standa sig eins vel og mögulegt er. Þeirra væntingar byggjast ekki á sigrum eða titlum, heldur að ná að klára í stigasæti. Þetta er líka fyrsta rússneska formúlu 1 liðið, knúið Toyota vél á Bridgestone dekkjum. Ökumennirnir eru Tiago Monteiro og Christijan Albers, sem stóðu sig vel á síðasta tímabili, þrátt fyrir slaka bíla.

Toro Rosso
Liðið sem áður hét Minardi, en var keypt af Red Bull, og heitir Red Bull á ítölsku. Ökumennirnir eru Vitantonio Liuzzi og Scott Speed. Liuzzi var þriðji ökumaður Red Bull í fyrra, þegar þeir létu hann og Klien skiptast á að keyra, en hefur nú fengið fast sæti hjá þessu liði. Bandaríkjamaðurinn Scott Speed var þróunarökumaður hjá Red Bull í fyrra en fær nú að reyna sig sem aðalökumaður. Líkt og Red Bull liðið er Toro Rosso á Michelin dekkjum en með Cosworth vélar. Á hvað liðið stefnir er óvíst en líklega er það að klára keppnir og reyna að vinna inn dýrmæt stig.

Super Aguri
Ellefta liðið í formúlunni. Japanskt lið rekið af Aguri Suzuki, fyrrum formúlu 1 ökumanni. Þeir eru með Honda vélar og Bridgestone dekk. Ökumennirnir hafa ekki verið opinberlega tilkynntir en líklegt þykir að Takuma Sato fái annað ökumannssætið. Hver hreppir hitt sætið verður bara að koma í ljós.


Komandi tímabil býður upp á mikla spennu og samkeppni. Liðin dreifast betur milli dekkjaframleiðenda, með sex lið á Michelin og fimm á Bridgestone. Breyttar tímatökur og leyfð dekkjaskipti í keppni er líka vísir á meiri spennu. Þótt þetta séu einungis ein dekkjaskipti, þá er farið aftur til þess tíma sem þjónustuhléin voru spennandi og áhugaverð að horfa á, ekki bara dæla og fara. Nú er bara að koma sér í startholurnar og fylgjast vel með öllum fréttum fram að Barhain kappakstrinum, þá líður tíminn hratt. Og áður en við vitum eru ljósin farin að kvikna eitt af öðru og svo af stað.
Stupid men are often capable of things the clever would not dare to contemplate…