Kæri Arnarh,
Ég er sammála þér í því að það sé ekki gott mál þegar menn eru að kópera efni beint af mbl.is, formula1.is og öðrum íslenskum vefum sem fjalla um formúlu 1. Menn sem gera slíkt dæma sig sjálfir. Hins vegar sé ég ekkert athugavert við það að menn þýði greinar sem þeir rekast á á “ferðalagi” sínu um erlenda vefi sem tengjast formúlu 1 eða öðru áhugamáli. Virtir innlendir fréttavefir hafa þann háttinn á. Menn ættu líka að setja eigin skoðanir og viðhorf inn í efni sem fengið er með þeim hætti.

Það er rétt hjá þér að benda á að sumt af því sem hefur verið skrifað sem grein ætti frekar heima á “korknum”, Iberniser hefur einnig bent á þetta og ég er hjartanlega sammála. Eins og segir í fréttatilkynningunni um Huga, þá er “kubburinn” greinar ætlaður fyrir lengri skrif, fréttalegs eðlis og/eða lýsandi fyrir skoðun viðkomandi höfundar. Korknum er ætlað að vera skilaboðatafla fyrir óformlegra spjall og umræður, flokkað eftir umræðuefnum. Ábendingar um tengla o.s.frv. ættu því heima á korknum nema ef það er verið að vísa í efni sem tengist greininni.

Í dag er liðin vika síðan hugi.is fór í loftið og viðbrögðin hafa verið góð. Það er alveg ljóst að þau samfélög sem myndast á Huga eiga eftir að þroskast m.a. fyrir tilstilli manna eins og þín. Skilningur þeirra sem taka þátt í samfélaginu á því hvar efnið á heima, mun vaxa og efnið verður betra og betra þegar fram líða stundir.

Ég tel að hugi.is sé það merkilegasta sem komið hefur fram í heimi Internetsins á þessu ári. Hugi veitir fólki tækifæri á því að eiga samskipti við marga og á margvíslegan hátt um sitt áhugamál, burtséð frá tölvuþekkingu viðkomandi. Eitt af því sem tengir fólk eru áhugamál. Áhugamálum á Huga mun fjölga á næstunni og bara í þessari viku fjölgaði þeim um tvö.