Mér finnst alveg tilvalið í lok tímabilsins að nefna nokkra einstaklinga og lið, sem standa upp úr.

Maður ársins
Kimi Raikkonen: Það er eiginlega ekki hægt að segja annað en að Kimi sé maður ársins, jafnvel þótt að hann hafi ekki orðið heimsmeistari. Hann hefur staðið sig mjög vel á þessu ári, án þess að bíllinn hafi verið allt of áreiðanlegur.

Fernando Alonso: Það er eiginlega ekki hægt að sleppa Alonso hér út, þótt ég sé alls ekki hrifin af honum. Hann er nú einu sinni yngstur allra til að verða heimsmeistari.

Tiago Monteiro: Það er ótrúlegt hvað hann hefur náð að klára oft á ekki betri bíl en Jordan. Ég held að hann hafi náð að klára 18 mót á tímabilinu og bætt met Michael Schumachers um 1 mót.

Klessubílakóngur ársins
Takuma Sato: Sato er nú eiginlega heimsmeistari í klessubílaakstri. Það er 7 mót sem hann lýkur ekki, en þar af eru 2 skipti sem hann er dæmdur úr leik. Annað í San Marínó fyrir að vera með of þungan bíl og hitt fyrir að keyra Trulli út úr í Japanskappakstrinum. Maður bíður eiginlega eftir því í hverju móti að sjá hvern hann keyrir á eða jafnvel út úr keppni. Það er svo sem mikil skemmtun fyrir áhorfendur að hafa einhvern eins og Sato meðal ökumanna, en hann er bara nokkuð hættulegur fyrir hina ökumennina.

Antonio Pizzonia: Hann kemst nú nokkuð nálægt Sato í klessum, þótt hann hafi ekki ekki keypt í eins mörgum mótum og Sato. Hann keppir í 5 mótum og fellur út í 2. Í Brasilíukappakstrinum keyrði hann á Coulthard á fyrsta hring.

Michael Schumacher og Christijan Albers: Þessir tveir verða nú einfaldlega að komast á listann eftir stórfurðulegt atvik í Kínakappakstrinum. Að lenda í árekstri áður en kappaksturinn hefst er eitthvað, sem jafnvel Sato hefur ekki tekist á sínum ferli.

Vonbrigði ársins
Ferrari: Þeir eru eiginlega ein stór vonbrigði. Eftir frábært gengi á síðasta ári, bjuggust allir við að þeir myndu láta mikið til sín taka, en það kom aldrei. Maður sat og beið eftir að þeir myndu sína gamalkunna takta, alla vega í einhverju móti en aldrei kom til þess.

Giancarlo Fisichella: Hann byrjaði vel með sigri en síðan er eins og ekkert hafi gengið hjá honum, hann klárar ekki 6 keppnir, meðan Alonso, liðfélagi hans, klárar ekki 2.

Bandaríski kappaksturinn: Klúðrið hjá Michelin fyrir kappaksturinn gerði það að verkum að aðeins 6 bílar hófu keppni, og þeir náðu nú allir að klára. En svona lagað ætti ekki að gerast og þetta var með leiðinlegri keppnum. Bandaríski kappaksturinn hefur nú oft verið mjög skemmtilegur á að horfa, aðallega vegna legu brautarinnar, en það var erfitt að sitja og horfa á þetta til enda.

Kínakappasturinn: Þessi kappastur var alveg óendanlega leiðinlegur. Ég skil ekki af hverju, vegna þess að öryggisbíllinn kom út tvisvar og það var alveg keppni í gangi, en einhvern veginn situr ekkert eftir til að minnast, annað en það að Renault varð heimsmeistari bílasmiða.

Sviti ársins
Flavio Briatore: Það kemur nú bara enginn annar til greina. Stundum getur maður ekki horft á manninn.

Persónuleikabreyting
David Coulthard: Hann hefur breyst alveg rosalega frá því að hann fór frá McLaren. Þar var hann frekar stífur en eftir að hann fór til Red Bull er eins og þetta sé allt annar maður.

Kappakstur ársins:
Japanskappaksturinn: Þetta var nú bara með skemmtilegustu keppnum sem ég hef séð lengi. Rigning í tímatökum ruglaði rásröðinni og í keppninni sjálfri var nóg af framúrökstrum, árekstrum og öðru sem gleður auga áhorfandans. Það var hörkukeppni allann tímann og nánast aldrei dauður tími.


Þetta er nú það sem mér datt í hug. Líklega mætti alveg finna miklu fleiri atriði sem vert er að minnast en ég set þau ekki inn hér. Nú verður maður bara að bíða eftir næsta tímabili og sjá hvað gerist þá.
Stupid men are often capable of things the clever would not dare to contemplate…