Keyrði í fyrsta skipti Hockenheim-kappaksturbrautina í gærkvöldi. Fór samtals rétt rúmlega 30 km…á línuskautum.

Það var virkilega gaman að fara brautina á þennan hátt og sjá hvernig beygjurnar eru t.d. settar upp, hvað hallinn er mikill í þeim o.þ.h. Sumt kemur manni samt á óvart, t.d. hvað brautin er þröng í skóginum - þar eru ekki nema ca. 2 og hálf bílbreidd. Svo hvað hallinn er rosalega mikill inn í endabeygjunni í skóginum.
Þá kemur líka á óvart hvað malbikið er gróft (hreinlega slitið),
sérstaklega í kröppustu beygjunum t.d. rétt fyrir startið. Mér fannst líka áhugavert að skoða battana, en þeir eru ótrúlega lágir t.d. inn í skóginum eru þeir ekkert annað en línurnar (að segja má). En þegar kapparnir í F1 eru að keyra yfir þetta þá eru þetta þvílík fjöll oft á tíðum, en þeir eru töluvert háir í þrengstu beygjunum og þá yfirleitt ytri kannturinn.

Suchumacher á enn betri tíma en ég, en sjáum hvað gerist þegar ég fer næst.
Reyndar var ekki alveg að marka þetta, því að lofthiti var ekki nema um 23 gráður enda komið kvöld…veit ekki hver brautarhitinn var.

Því miður gat ég ekki farið alla brautina en hún var lokuð þar sem aðal slaufurnar eru rétt fyrir startið, en það er verið að setja upp svið. AC/DC er að fara að spila Open Air á brautinni á sunnudag.

Nú er kominn töluverð spenna í Þjóðverjana, keppnin nálgast og það er löngu orðið uppselt. Það er þó hægt að fá miða á “svörtu” en verðin eru töluvert upp undir helmingi hærri. Þá er hægt að tryggja sér miða nú þegar fyrir næsta ár!!! Það má segja að þeir hugsi aðeins öðruvísi en Íslendingar.

Ég talaði líka við einn starfsmann brautarinnar og hann sagði að öll öryggisgæsla brautarinnar yrði með strangasta móti. En það er gert í ljós þess sem gerðist í fyrra þegar fyrrverandi starfsmaður Mercedes Benz skellti sér í göngutúr meðfram brautinni.