Reglugerðarbreytingar fyrir 2001
FIA hefur samþykkt nýjar reglur fyrir næsta ár sem eiga að gera frammúrtökur auðveldari. Breytingarnar felast einna helst í að minnka niðurþrýsting að framan með því að hækka framvæng. Reglugerðarpakkinn, sem inniheldur einnig fleiri öryggisþætti fyrir ökumennina, þar samþykktur einróma af formúluliðunum og FIA ráðinu í dag. Framvængirnir verða hækkaðir um 50 mm. sem minnkar niðurþrýsting bílanna að framan og búast má við að hönnuðir bílanna þurfi að gera breytingar á afturhluta þeirra einnig til að jafna út loftflæðið. Þetta þýðir einfaldlega að hraði í beygjum minnkar og bílarnir verða ekki eins viðkvæmir fyrir loftstreymi frá öðrum bílum. Afleiðingin er sú að frammúrakstur verður auðveldari. Öryggisþættirnir eru helstir þeir að meira verður lagt í veltibúr og þá sérstaklega á hliðum þess, stærra op fyrir ökumann og meira ökumannsrými. Auk þess var bætt við auka snúru í dekk til að minnka hættu á að það losni í óhappi.