David Coulthard heldur því fram að vélarstoppið rétt fyrir upphitunarhringinn í kanadíska kappakstrinum í Montreal hafi kostað hann sigur í mótinu.
Coulthard varð að fá aðstoðarmenn sína til að endurstarta mótornum nokkrum sekúndum áður en upphitunarhringurinn skyldi hefjast og fékk því 10 sekúndna vítisstopp eftir að keppnin hófst.
Dómarar sögðu að starfsmenn McLaren hefðu ekki yfirgefið rásmarkið fyrr en 15 sekúndum fyrir upphitunarhringinn.
Atvikið varð til þess að Coulthard varð að fara inn á bílskúrasvæðið og taka út 10 sekúndna stoppvíti en þá var hann í öðru sæti á eftir Michael Schumacher og voru þeir vel á undan öðrum ökuþórum.
Coulthard varð að sætta sig við sjöunda sæti á endanum en um atvikið sagði hann: „Þetta var leitt því því ég var greinilega hraðskreiðari en Schumacher og hver veit hvað gerst hefði annars.“

Með sigrinum er Schumacher 22 stigum á undan honum í stigakeppni ökuþóra. Coulthard sagði atvikið verulega skerða möguleika sína á heimsmeistaratitlinum. „Eftir sigurinn í Mónakó er ég núna ekki í þeirri stöðu sem ég vildi vera. Og þetta er niðurdrepandi eftir allt sem við höfum á okkur lagt hér. Nú er bara að bíta í skjaldarrendur og reyna að minnka bilið aftur,” sagði hann.