McLaren ökumaðurinn David Coulthard á þrítugsafmæli í dag. Skotinn er sá þeirra McLaren ökumanna sem byrjað hefur tímabilið betur, en hann hefur oft verið gagnrýndur fyrir ójafnan árangur.

Hann á hann dágóðan áhangendaskara, og eins og fram kemur í greininni hér á mbl.is um stöðu ökumanna hjá veðbönkum erlendis eru taldar næstmestar líkur á því að skotinn geðþekki verði heimsmeistari í Formúlu-1 á þessu ári.

Það er sama hversu oft Ron Dennis minnir okkur á að ökumenn hans hafi jafna stöðu innan liðsins, það hefur alltaf virkað sem svo að Coulthard væri ökumaður númer tvö, á eftir Mika Häkkinen. Skotinn á mjög stóran hóp áhangenda, en sé tekið tillit til þess hvaða búnað hann hefur verið með í höndunum síðustu árin, verður að segjast að niðurstöðurnar hafi frekar valdið vonbrigðum. Hans helsti veikleiki er stöðugleikinn; Stundum er hann svo eldfljótur að undrun vekur, meðan á öðrum stundum lítur helst út fyrir að hann sé úti að aka í léttum sunnudagsbíltúr.

David Coulthard var talsvert í fréttum utanbrautar í fyrra þegar einkaflugvél hans hrapaði rétt hjá París. Flugmaðurinn lést, en Coulthard, kærasta hans og lífvörður sluppu með skrekkinn. Þetta hafði að sjálfsögðu mikil áhrif á skotann, en það virkaði jafnvel eins og þetta hefði styrkt hann, því þrátt fyrir að þjást af verkjum eftir flugslysið, ók hann bæði betur og jafnar en áður. Hann náði sér samt ekki alveg á strik á síðasta tímabili, en nú virðist sem líkurnar séu taldar meiri og jafnvel spurning hvort hans tími sé nú kominn?