Schumacher sættist við hjálmaframleiðanda
Heimsmeistarinn Michael Schumacher varð að skilja „hátæknihjálminn" sinn eftir í bílskúrnum í fyrstu keppni ársins og notast við Bell-hjálminn til að spara sér sektir.

Hefði hann ekki notað hjálminn sem Bell útbjó handa honum hefði hann þurft að punga út 250,000 mörkum á dag, jafnvirði röskra 10 milljóna króna. En í kæfandi hita Malasíu hyggst Schumacher notast við nýja undrahjálminn, þar sem óvænt dómssátt náðist milli hans og Bell.

Fyrir Schumacher kemur þessi óvænta stefnubreyting hjálmaframleiðandans á besta tíma, þar sem hann stefnir nú á sjötta sigur sinn í röð. Í Melbourne kvartaði hann mikið undan loftinntakinu í hjálminum, þar sem hann þurfti að beita fyir sig höndunum til að fá loftkælingu í þröngann stjórnklefann. Með nýja hjálminum og loftflæðilegum breytingum á Ferraribílnum, á það að vandmál að heyra sögunni til.

Hjálmurinn, sem á að vera þægilegri og öruggari en aðrir hjálmar, er einnig notaður af Ralf Schumacher og Nick Heidfeld. Léttari og þó sterkari efni, s.s. koltrefjaefnið kevlar, eiga að hlífa hálsvöðvum ökumannanna. Þessir hjálmar eru þó ekki gefins og kostar stykkið 15.000 mörk, eða 600.000 krónur.

Eitthvað hefur bandaríska fyrirtækinu litist illa á þá neikvæðu umfjöllun sem það fékk í kjölfar samningssvika Schumachers og gaf eftir á endanum. Ekki fæst uppgefið hvernig sættir náðust og hvort einhverjar bætur verði greiddar.
Gerðu hlutina almennilega eða vertu heima.