Nýi McLaren-mercedes keppnisbíllinn, MP4-16, var frumsýndur í Valencia á Spáni í morgun við mikinn fögnuð hundruða gesta. Bæði bílstjórar og aðrir liðsmenn McLaren lýstu mikilli ánægju með nýju “silfurörina” og eru bæði bjartsýnir og ákveðnir í að endurheimta titilinn í ár.

Þeir Häkkinen og Coulthard afhjúpuðu gripinn rétt fyrir tíu í morgun ásamt prufuökumanninum nýja, Þjóðverjanum Alexander Wurz. Norbert Haug, sem sér um mótorsportdeildina fyrir Mercedes-verksmiðjurnar, segir liðið ákveðið í að krækja aftur í það sem það krækti sér í 1998 og 1999 - nefnilega heimsmeistaratitil ökumanna. Þá er ekki lögð minni áhersla á að ná titili framleiðenda, en þann titil hefur Ferrari-liðið tryggt sér tvö ár í röð.

Coulthard er þegar búinn að prufukeyra nýju græjuna, hann tók tvær langar æfingar í gær og fyrradag og var yfir sig ánægður með gripinn. “Þetta var vandræðalausasta prufukeyrsla sem ég hef upplifað, ég þurfti aldrei að stoppa,” sagði Coulthard, en hann ók um það bil 500 kílómetra á brautinni í Valencia.

Liðsstjórinn, Ron Dennis, var líka býsna kampakátur á frumsýningu nýja bílsins. “Við höfum lagt alla okkar orku í þennan bíl. Meira að segja Norbert Haug er orðinn rennilegri, eftir að hann rakaði af sér yfirskeggið,” sagði Dennis, og lagði áherslu á að stemmningin í hópnum væri góð.

Norbert Haug, sem er yfirvélahönnuður liðsins, lýsti því yfir á dögunum að hann hefði engar áhyggjur af sífellt batnandi tímum nýja Ferrari-keppnisbílsins, en Michael Schumacher hefur sett hvert brautarmetið af öðru á Fiorano-brautinni að undanförnu. Hann sagði í viðtali við þýska tímaritið Der Spiegel í síðustu viku, að nýi McLareninn yrði einnig umtalsvert hraðskreiðari en sá gamli, og gaf lítið fyrir stóryrði Ferrari-manna.

Hann hélt því fram að nýja Mercedes-vélin væri enn sú minnsta og léttasta í bransanum, og að öllum líkindum einnig sú öflugasta. Mercedes væri því ennþá í fararbroddi vélarhönnuða og þeirra vél væri sú, sem aðrir miðuðu við.

Ástæðan fyrir því að nýi bíllinn var ekki frumsýndur fyrr en núna, tæpum mánuði fyrir fyrstu keppni, var sú, að haug og félagar ákváðu á síðustu stundu að endurhanna yfirbyggingu bílsins nánast frá grunni, með tillitil til nýju vélarinnar og nýrra reglugerða FIA, fremur en að byggja fyrst og fremst á því sem fyrir var og gera nauðsynlegar breytingar á því.

Þetta hefur valdið áhangendum Häkkinens og Coulthards nokkrum áhyggjum, þar sem þeir fá styttri tíma en skæðustu keppinautarnir hjá Ferrari til þess að venjast nýja bílnum, auk þess sem styttri tími gefst til að lagfæra þá galla sem hugsanlega eiga eftir að koma í ljós á nýrri vél og nýrri yfirbyggingu.

Hvorki Häkkinen né Coulthard virtust þó hafa sérlega miklar áhyggjur af þessu þegar þeir afhjúpuðu nýja vinnubílinn sinn í morgun, heldur brostu þeir báðir sínu breiðasta og sögðust fullir sjálfstrausts með þennan vagn undir rassinum.