Þeir Michael Schumacher, Rubens Barichello og Luca Badoer afhjúpuðu nýja Ferraribílinn í Maranello í morgun að viðstöddum 500 aðdáendum og jafn mörgum blaða- og fréttamönnum.

Schumacher afhjúpaði nýja “vinnubílinn” sinn kl. 11.09 í morgun að ítölskum tíma í stóru tjaldi fyrir framan aðalstöðvar Ferrari í Maranello, ásamt félaga sínum Rubens Brichello og reynsluökumanninum Luca Badoer.

Nýi bíllinn heitir því einfalda nafni F2001, rökrétt framhald af bílnum sem tryggði Schumacher og Ferrari heimsmeistaratitilinn í fyrra, F2000. Enn á eftir að koma í ljós hvaða breytingar helstar er búið að gera á bílnum, en ein er sú breyting sem blasir við öllum og yljar Tifosiliðinu um hjartarætur - hann er númer 1, í fyrsta sinn í 19 ár. Og stefnan er að sjálfsögðu sú í herbúðum Ferrari að arftakinn - væntanlega F2002 - verði óbreyttur hvað þetta tiltekna atriði snertir.

Schumacher sjálfur ætlar altént að gera sitt til að svo megi verða. Eftir að hann afhjúpaði nýja bílinn lýsti hann því yfir að hann hafi aldrei verið jafn æstur í sigur og einmitt nú. Yfirlýsingin var á bjagaðri ítölsku, sem hann las af litlum miða. Þótt bjöguð væri, dugði hún þó til að æra viðstadda aðdáendur heimsmeistarans og stolts ítalsks bílaiðnaðar, Ferrari. “Ég mun áfram gera allt sem í mínu valdi stendur til að tryggja áframhaldandi velgengni Ferrari á komandi árum. Fyrir því berjumst við.”

“Viljum verða heimsmeistarar”
Liðsstjóri Ferrari-liðsins, Jean Todt, ítrekaði að árangur liðsins í fyrra væri því mikil hvatning fyrir komandi keppnistímabil. “Eftir að hafa lifað öll þessi ár í von og vonbrigðum, þá erum við loksins komnir með númer 1 á bílinn og við erum alveg harðákveðnir í að halda því númeri áfram” sagði hinn franski Todt, sem er mikill vinur Schumachers. Forstjóri Ferrari, Luca di Montezimolo, tók svo undir með þeim félögum í bjartsýnisyfirlýsingakórnum: “Við viljum líka verða heimsmeistarar 2001” sagði hann og brosti sínu breiðasta.

Scumacher og Barichello taka fyrstu hringina á nýja bílnum í þessari viku, á æfingabraut Ferrari í Fiorano. Ferrari liðið heldur svo með allt sitt hafurtask til Ástralíu eftir um það bil þrjár vikur til að búa sig undir fyrsta kappakstur keppnistímabilsins, Melbourne-kappaksturinn hinn 4. mars.