Góðan daginn!

Ég er með spurningu sem mig langar aðallega til þess að beina til stjórnenda hérna á hugi.is/flug (þó svo að þær vangaveltur sem fylgja séu ekkert síður ætlaðar öðrum stjórnendum og notendum öllum).

Það er nú ekkert nýtt að stafsetning og málfar séu þrætuepli milli fólks hér á vefnum. Mig langar þó til þess að grennslast fyrir um það hvort það séu engin viðmið varðandi þessi atriði til staðar sem stjórnendur þurfi að fara eftir þegar kemur að því að samþykkja eða hafna greinum og könnunum.

Ég gæti talið til nokkuð mörg nýleg dæmi um samþykktar greinar og kannanir þar sem málfari og stafsetningu hefur verið ívið mikið ábótavant en til þess að vera ekki að beina spjótunum að ákveðnum notendum tel ég best að sleppa því. Ég kýs að taka frekar þann pól í hæðina að leggja til eftirfarandi:

1. Að notendur sem semja greinar og kannanir reyni að vanda sig aðeins betur hvað málfar varðar. Ég ætla ekki að berja hausnum við stein og ætlast til þess að allt verði villulaust, en oft þarf ekki nema bara snöggan yfirlestur til þess að koma auga á knökra sem auðvelt og fljótlegt er að laga

2. Að stjórnendur hafni greinum sem eru áberandi ílla uppsettar og fullar af villum og láti þá athugasemd þar að lútandi fylgja með höfnuninni svo viðkomandi greinarhöfundur átti sig á því að hann geti fengið greinina samþykkta með því að laga hana til. Það hefur verið æði algengt undanfarið að greinar sem hafa verið samþykktar hafi verið nánast óskiljanlegar vegna þess hversu ílla þær hafa verið frágengnar (sem er miður, því oft er umfjöllunarefnið sjálft alls ekki neitt slæmt). Sama þyrfti að gilda um kannanir, en þeim ætti að hafna ef texti þeirra er áberandi vitlaus eða ef samhengi í svarmöguleikum er slæmt.

Ég vona að þessar vangaveltur vekji fólk til umhugsunar en fæli engan frá því að senda inn greinar.


Bestu kveðjur,
747