Á landinu er staddur R.E.G.Davies, forstöðumaður atvinnuflugsdeildar (“Curator of Air Transport”) National Air & Space Museum Smithsonian safnsins í Washington í Bandaríkjunum. Ron Davies er þekktur sem einn helsti sérfræðingur í sögu atvinnuflugs í heiminum.

Samhliða störfum sínum við National Air & Space Museum veitir hann forstöðu eigin útgáfufyrirtæki, Paladwr Press, sem sérhæfir sig í útgáfu bóka um sögu atvinnuflugsins. Hann hefur skrifað á þriðja tug bóka og ótal greina um atvinnuflug og gefið út fjölmargar bækur eftir aðra höfunda um sögu flugfélaga. Á árunum 1941 til 1942 var hann í herliði Breta með aðsetur á Búðareyri við Reyðarfjörð.

Hingað kemur Ron Davies í boði Avion Group og heldur hann tvo fyrirlestra meðan á dvöl hans stendur. Fyrri fyrirlesturinn verður í Flugsafni Íslands á Akureyri þann 13. september n.k., kl. 18:00, og nefnist “Dirt Strips and Thin Ice at the End of the Line”, sem er samantekt í léttum dúr þar sem hann segir frá óvenjulegum áfangastöðum/flugvöllum sem hann hefur heimsótt í ferðum sínum með áætlunarflugfélögum víða um heiminn.

Síðari fyrirlesturinn verður haldinn á Hótel Loftleiðum þann 14. september n.k., kl. 20:00, og nefnist “Directions of Air Transport in the 21st Century” eða “stefnur í atvinnuflugi á 21. öld”, en þar ræðir hann m.a. um Airbus A380 og Boeing 787. Fyrirlestrarnir verða fluttir á ensku og eru opnir öllu flugáhugafólki.


http://en.wikipedia.org/wiki/R.E.G._Davies