Það er athygglisverð grein í síðasta tölublaði Lifandi vísinda. Ég ætla að koma henni á framfæri hér. Þar sem ég er ekki að skrifa ritgerð fyrir lögfræði próf þá veit ég ekki hvort að ég sé með þessu að gerast sekur um ritstuld eða misnotkun á efninu, ég vona ekki.
Greinin er svo hljóðandi:

“FARÞEGAÞOTURNAR FARA RÉTT UNDIR HLJÓÐHRAÐANUM.
Boeing ætlar að stytta flugtímann yfir Atlantshafið um klukkustund

Hjá bandarísku Boeing verksmiðjunum íhuga menn nú að þróa nýja þotu til farþega- og vöruflutninga, sem nái 95% af hljóðhraða og komist þar með um 1.00 km á klukkustund. Það er 20% meiri hraði en algengar farþegaþotur ná nú.
Fram að þessu hafa flugfélögin séð sér mestan hag í því að flytja sem flesta farþega í hverri ferð og verksmiðjurnar hafa því keppst við að smíða æ stærri vélar. Nú spá sérfræðingar því að í framtíðinni muni markaðurinn fremur stjórnast af hraða en stærð. Nýja flugvélin, sem hjá Boeing verksmiðjunum gengur undir vinnuheitinu ”Sonic Cruiser“, verður fær um að stytta flugtímann milli London og New York um heila klukkustund og þar með verður hægt að fljúga sömu vélinni fram og til baka sama dag.
En þessi nýja háhraðavél verður í útliti næsta ólík þeim farþegaþotum sem við eigum að venjast. Hæðastýriblöðin verða fremst en vængir og hreyflar aftast. Þar með minnir þessi þota öllu meira á hina frægu njósnavél ”SR-71 Blackbird“. Þessi framúrstefnuhönnun er nauðsynleg vegna þess hvernig lögmál loftaflfræðinnar breytast þegar flugvél nálgast hljóðhraðann.
Hönnun þessarar háhraðavélar er einnig óvæntur leikur í þeirri stöðugu skák sem Boeing-fyrirtækið teflir í sífellu við helsta keppinaut sinn á markaðnum, evrópsku Airbus-verksmiðjurnar, en þær hafa einmitt nýlega veðjað á stærðina með þróun nýrrar þotu sem nefnist A380 og á að taka 650 farþega. Til að Sonic Cruiser standi sig á markaðnum, má vélin ekki verða dýrari í rekstri en breiðþotur eru nú. Það eru þannig ekki margir sem hafa efni á að borga farmiða með t.d. Concorde-þotu fyrir hátt í milljón krónur”.
“Hraði: 95% af hljóðhraða eða um 1.100 km/klst.
Flugþol: 16.000 km. Farþegafjöldi: 175-250 manns”.

Þessi grein er skrifuð fyrir atburðina í BNA og óvíst er hvaða árif það hefur á framvindu mála.