Það hefur verið svolítil umræða í gangi um óöryggi lággjaldaflugfélaga, sérstaklega eftir þennan fræga þátt um RyanAir. Mig langar aðeins að setja málið “í perspektív” :

Ég þekkti eitt sinn gamlan góðan Kana sem á yngri árum var í hernum, og öðlaðist þannig ævilangan rétt á að húkka frítt far hvert sem var, með hvaða airlift-vél sem honum sýndist. Svo lengi sem var pláss, þá var það bara “já ekkert mál, hoppaðu uppí” - eða í versta falli “sorrý, öll sætin eru upptekin, en þú getur lagt þig á póstpokunum þarna afturí ef þú nennir ekki að bíða eftir næstu vél” Veit ekki hvort þeir eru búnir að herða reglurnar núna, en gæti vel trúað því.

Allavega, þessi ameríski ævintýrakall var árum saman búinn að ferðast um heiminn þveran og endilangan með flutningavélum bandaríska flughersins, og hafði ekki orðið meint af. Ég held samt að öryggiskröfur RyanAir séu mun strangari en hjá flutningadeild USAF fyrir 20 árum síðan.

Þetta er í raun spurning um hvort líkurnar á að hrapa séu stjarnfræðilega litlar (eins og hjá IATA-félögum), ævintýralega litlar (hjá lággjaldafélögum eins og RyanAir), eða svipaðar eins og að fá lottóvinning (eins og hjá flutningafélögum og herjum).

Í öllu falli, þá er fólk strax komið í margfalt meiri lífshættu þegar það yfirgefur flugvöllinn og heldur útí umferðina. Reykjanesbrautin er þar sannarlega engin undantekning.
_______________________