Bandaríski Boeing flugvélaframleiðandinn ætlar sér að reyna að slá heimsmetið í samfelldu farþegaflugi, en Boeing flugvél af gerðinni 777-299LR mun leggja af stað frá Hong Kong kl. 22.30 á staðartíma í dag (14.40 að ísl. tíma) og mun hún lenda í London kl. 13.30. Um er að ræða flug sem tekur 23 klukkustundir og nemur vegalengdin 20.300 km.

Styttri leiðin verður ekki farin að þessu sinni, þ.e. frá Hong Kong og svo flogið yfir Rússland, heldur verður flogið í austurátt og yfir Bandaríkin og þaðan til London.

Boeing vonast til með þessu að skáka helsta keppinaut sínum, Airbus, á sviði langflugs.

Að sögn forsvarsmanna Boeing var núverandi heimsmet í langflugi farþegaflugvélar sett árið 1989 þegar Boeing 747-400 risaþota flaug tæpa 17.000 km frá London til Sidney í Ástralíu.

Boeing vonast jafnframt til þess að heimsmetið muni hvetja flugfélög til þess að bjóða flug án viðkomu um allan heim. Það muni bæði spara eldsneyti og tíma.

Helsti keppinautur Boeing, evrópski framleiðandinn Airbus, hleypti af stokkunum A380 risafarþegaflugvél sinni fyrr á þessu ári, en vélinni er ætlað að vera leiðandi á sviði langflugs.

Alls verða 35 manns um borð í flugvélinni þ.á.m. yfirmenn Boeing, viðskiptavinir, blaðamenn og áhöfn, að því er segir á fréttavef BBC.