Tók þetta af mbl.is

Fullur flugstjóri, flugmaður og flugfreyja

Flugstjórinn, flugmaðurinn og ein af flugfreyjunum í áhöfn farþegaþotu breska flugfélagsins British Airways voru tekin grunuð um ölvun þegar áhöfnin undirbjó flug frá Gardermoen-flugvelli fyrir utan Ósló fyrr í morgun. Lögreglan á flugvellinum tók fólkið og lét það blása í blöðru, sem sýndi rautt, segir í frétt á vef norska ríkisútvarpsins, nrk.no. Einhver sem ekki vildi láta nafns síns getið hringdi í lögreglu og benti henni á að fólkið væri sennilega undir áhrifum áfengis. Þusti lögregla út í flugvélina, sem ætlað var að fara til Lundúna, rétt áður en fimmtíu og fimm farþegum skyldi hleypt um borð.

Að sögn Arvid Furuly, vaktstjóra hjá flugvallarlögreglunni, voru tekin blóðsýni úr fólkinu en það var yfirheyrt síðdegis. Hinn fimmtugi flugstjóri, tuttugu og sex ára flugmaður og fjörutíu og átta ára gamla flugfreyja eru öll breskir ríkisborgarar.

Talsmaður British Airways segir að flugliðum sé óheimilt að vera undir áhrifum áfengis í vinnunni, umburðarlyndi félagsins sé ekkert þegar komi að þeim þætti.

Langflestir farþeganna fengu far með hinu norræna flugfélagi SAS, sem flutti þá heilu og höldnu til Lundúnaborgar, og fer engum sögum af drykkju áhafnar þeirrar flugvélar.