Sagaflug flugfélagsins
1947 - 1956
Þriðjudaginn 7. janúar 1947 var boðað til fundar að Hótel Winston á Reykjavíkurflugvelli. Tilefni fundarboðsins var umræða um stofnun félags flugvirkja á Íslandi. Á fundinn mættu rúmlega 20 manns. Fundarstjóri var kosinn Jón N. Pálsson og fundarritari Ingólfur Guðmundsson. Í lok fundarins var kosin þriggja manna nefnd til að gera drög að lögum væntanlegs félags og vinna að öðrum undirbúningi stofnunar þess.

Þann 21. janúar 1947 mættu síðan á Hótel Winston 33 menn til að ræða tillögur undirbúningsnefndarinnar og samþykktu síðar félagslög, en fyrir fundinn lágu drög að lögum væntanlegs félags. Þennan dag var Flugvirkjafélag Íslands stofnað. Í fyrstu stjórn félagsins voru kosnir: Jón N. Pálsson, formaður, Dagur Óskarsson, ritari og Sigurður Ingólfsson, gjaldkeri. Þrír varamenn voru einnig kosnir, þeir Ásgeir Magnússon varaformaður, Sigurður Ágústsson vararitari og Sigurður Erlendsson varagjaldkeri. Endurskoðendur félagsins voru kosnir Gunnar Valdimarsson og Sveinbjörn Þórhallsson.