Jóhann Þ. Jóhannsson, formaður Félags íslenskra atvinnuflugmanna, segir að nú um mánaðamótin hafi 14 flugmenn hætt störfum hjá Flugleiðum og uppsagnir 20 til viðbótar gangi í gildi um næstu mánaðamót. Þá hafi 20 flugmenn sem sagt var upp þar í fyrra ekki fengið störf í sumar og því hafi og muni alls fækka um 54 flugmenn hjá Flugleiðum á 12 mánuðum. Áður en til uppsagnanna kom störfuðu um 230 flugmenn hjá fyrirtækinu og segir hann flugmönnum félagsins því hafa fækkað um nærri 24% á rúmu ári.
Formaðurinn segir að Flugleiðamenn leiti nýrra verkefna og muni ráða flugmenn á ný beri það árangur. Hann segir hins vegar slæmt að fyrirtækið skuli vera að festa sig í árstíðasveiflum sem þýði að yngstu flugmönnunum bjóðist aðeins sumarstörf. Stjórn FÍA hefur ályktað um málið og segir þar m.a. að með þessum aðferðum kunni fyrirtækið að “missa flugmenn, sem miklu hefur verið kostað til, til annarra flugfélaga”.

Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Flugleiða, segir uppsagnirnar koma til vegna samdráttar í áætlunarfluginu yfir veturinn. Hann segir stöðugt leitað nýrra verkefna á sviði leiguflugs og fraktflugs en ekkert sé hægt að segja um árangur að svo stöddu.

Cargolux hefur undanfarið ráðið allmarga flugmenn, flesta frá Austurríki, Þýskalandi og Belgíu. Eyjólfur Hauksson, flugrekstrarstjóri Cargolux, segir marga hafa sótt um frá Belgíu í kjölfar gjaldþrots Sabena flugfélagsins. Hann sagði einnig nokkra íslenska flugmenn hafa sótt um í kjölfar uppsagna hjá Flugleiðum en þá hafi Cargolux nýlega verið búið að skipa í flestar stöðurnar. Hann segir þó ekki útilokað að íslenskir flugmenn verði ráðnir á næsta ári. Hann segir ekkert því til fyrirstöðu að ráða íslenska flugmenn sem uppfylli kröfur JAR-reglugerða um skírteini atvinnuflugmanna.

Hjá Cargolux starfa alls um 320 flugmenn sem Eyjólfur segir vera frá um 14 löndum. Fyrirtækið hefur nú 12 þotur í rekstri og réð nýverið hátt í 20 flugmenn til að manna nýja þotu sem bættist nýlega í flotann. Hann segir yfirleitt um 10 áhafnir á hverri þotu.