Ákveðið hefur verið í samráði við Atlantshafsbandalagið að íslenskir flugumferðarstjórar fari til Pristina til að taka við flugumferðarstjórn í Kosovo. Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra átti á dögunum fund með Elísabetu Jones, aðstoðarutanríkisráðherra Bandaríkjanna, þar sem málið bar á góma en Íslendingar hafa fengið beiðni um að taka við yfirstjórn flugvallarins.
Er nú leitað leiða til að verða við þeirri beiðni, að sögn Halldórs.

Að sögn Þorgeirs Pálssonar flugmálastjóra hafa áður komið fram hugmyndir um að íslenskir flugumferðarstjórar og fluggagnafræðingar fari þangað til að sinna flugumferðarstjórn. Málið kom upp að nýju í síðustu viku og er rætt um að allt að sex manns, flugumferðarstjórar ásamt fluggagnafræðingum, fari til starfa í Pristina, að öllum líkindum í næsta mánuði. Þeir sem þátt taka í verkefninu starfa bæði í Reykjavík og á Keflavíkurflugvelli.

“Það hefur verið óskað eftir þessari aðstoð nú alveg á næstunni og utanríkisráðuneytið hefur farið þess á leit við samgönguráðuneyti og Flugmálastjórn að kannaðir verði möguleikar á að senda flugumferðarstjóra þangað,” segir Þorgeir.


Stendur yfir í sex mánuði
Að sögn Þorgeirs er Hallgrímur Sigurðsson, varaframkvæmdastjóri flugumferðarsviðs hjá Flugmálastjórn, farinn til Pristina til að kanna þar aðstæður en hann er kunnugur á þessum slóðum og átti meðal annars þátt í undirbúningi á vegum NATO að því að flugumferð hófst um Pristina-flugvöll að nýju fyrir um tveimur árum.
Að sögn Þorgeirs mun það skýrast nánar á næstunni hvernig verkefninu verður háttað en rætt hefur verið um að það standi yfir í sex mánuði og að íslenskir flugumferðarstjórar og fluggagnafræðingar starfi þar í þrjá til sex mánuði.

Er þetta ekki bara gott mál? Loksins láta Íslendingar til sín taka á alþjóðavettvangi flugsins.