Afmæli hjá Geirfugli Það eru ekki allar flugfréttir dauði og djöfuldómur, þó annað megi halda af umfjöllun fjölmiðla. Grímseyjarflugið um síðustu helgi var frábært, og núna um helgina var annar skemmtilegur atburður.

Flugfélagið Geirfugl var stofnað þann 27. maí 1997 af 6 ungum og upprennandi einkaflugmönnum. Nú er barnið orðið fimm ára, og var haldið upp á það með miklum látum á laugardaginn (kosninga- og Eurovisiondaginn). Skýli 24 var lagt undir fagnaðinn sem samanstóð af grillveislu, myndasýningu, ræðuhöldum og verðlaunagetraun.

Það var mikill kraftur í fólki enda er verið að fjölga í félaginu, og eru Geirfuglar nú orðnir um 115 talsins.

Næsti stórviðburður Geirfugls verður Sumarhátíðin á Hellu 2002, sem áætluð er helgina 6.-7. júlí. Að sjálfsögðu eru allir flugáhugamenn velkomnir í heimsókn.

Áfram Geirfugl !
Kristbjörn