Lok, lok og læs og allt í stáli Nú er loksins komið út NOTAM frá FMS sem staðfestir það
sem flesta grunaði. Til að bjarga sálarheill NATÓ toppana á
að stoppa allt einka- og kennsluflug frá Reykjavíkurflugvelli í
nokkra daga á meðan Fokkerar FÍ fljúga óáreittir yfir borginni.

Nákvæmlega stendur til að banna alla flugumferð um
Reykjavíkurflugvöll og hring í 5 NM radíus í kring um völlinn, frá
sjávarmáli og upp i 10.000 feta hæð, nema fyrir nokkrar
undantekningar sem eru áætlunarflug, leiguflug, sjúkraflug og
vélar í neyð. Þó að 5 NM hljómi ekki mikið þá gerir þetta meira
en að dekka allt Höfuðborgarsvæðið, samtals yfir 250
ferkílómetra.

Þessi ráðstöfun er með miklum ólíkindum. Þó svo að nokkrir
arabar hafi gert gríðarlegan usla með því að ræna nokkrum
767 þotum fyrir nokkrum mánuðum, þá er engin ástæða til að
óttast allt sem flýgur. Bílasprengjur eru t.d. mun algengari en
hryðjuverk með flugvélum. Ég hef samt sem áður litla trú á því
að höfuðborgarsvæðinu verði lokað fyrir almennri bílaumferð,
eins og þeir gera með einkaflugið.

FMS hefur lengi gert sér það að leik að stoppa einka- og
kennsluflug af minnsta tilefni, þrátt fyrir að hafa ekki nokkra
heimild til að gera upp á milli flugs eftir því hvort flugmaðurinn
fær borgað fyrir flugið eða ekki. Þeir komast upp með það af
því að við erum ekki nógu duglegir að kvarta. Ég heyrði í
fréttum að flugkennarar (FSÍ ?) hefðu kvartað, en meira veit ég
ekki. Ég fer í það á morgun að hringja á FMS,
samgönguráðuneyti og utanríkisráðuneyti til að spyrja út í
þetta, en reikna ekki með miklum árangri.

NOTAMið er að finna á síðum Flugmálastjórnar, en í A-flokki
sem þýðir að það er ekki sjálfkrafa faxað til flugrekanda.
Merkileg ráðstöfun.
http://www.caa.is/cgi-bin/bl-sys/show.pl?template=almennarb
.asp

Kristbjörn