Samkvæmt könnun sem gerð var hér á Huga fyrr á dögunum virðist sem að margir vita ekki hvað Flugmálafélag Íslands er. Því ákvað ég að skrifa þessa grein til þess að upplýsa þá sem það ekki vita, og þeim sem það vita til gamans. Ef að þessi grein fullnægir ekki forvitni þinni um félagið eða hafir þú einhverjar frekari spurningar um starfsemina eða vilt koma einhverju á framfæri við okkur, sendu okkur þá póst á fmi@flugmalafelag.is einnig er hægt að finna meira af upplýsingum á heimasíðu okkar www.flugmalafelag.is

Flugmálafélag Íslands (FMÍ) var stofnað 25. ágúst árið 1936 af Agnari Kofoed Hansen og hefur starfað síðan sem samband félaga og klúbba fyrir áhugamenn um flugmál. Eingöngu félög og klúbbar eru á félagsskrá Flugmálafélagsins og getur því enginn einstaklingur orðið fullgildur meðlimur félagsins.

Hlutverk FMÍ:
Tilgangur félagsins er að sameina alla er áhuga hafa á flugmálum í eina styrka heild og stuðla að vexti og viðgangi flugs og flugíþrótta á Íslandi. Félagið stefnir að eflingu almennrar þekkingar á flugmálum og að stuðla að þjálfun félagsmanna í hinum ýmsu greinum flugsins. Einnig stofnar félagið til keppni og flugmóta í hinum ýmsu greinum flugíþrótta og annast þáttöku Íslands í erlendum mótum. Félagið gætir hagsmuna félaga sinna og kemur fram fyrir þá gagnvart innlendum og erlendum aðilum. Flugmálafélag Íslands er aðili að Fédération Aéronautique Internationale (FAI) og er fulltrúi þess á Íslandi, svo og að vera aðili að Association of Nordic Aero Clubs (ANA) sem er Flugmálasamband Norðurlanda.

Starfsemi FMÍ:
Starf FMÍ fram að þessu hefur verið margvíslegt en nefna má sem dæmi flugöryggisfundina sem svo margir hafa sótt í gegnum tíðina og fjöldskylduhátíðina í Múlakoti, en þetta eru orðnir fastir liðir ásamt lendingarkeppnum, listflugskeppnum, svifflugmótum, flugmódelmótum og fleiru. Fulltrúar FMÍ hafa farið erlendis á fundi hjá FAI og ANA og haldið sambandi við aðrar þjóðir gagnvart fluginu þar og heima. Einnig hefur félagið unnið í ýmsum hagsmuna málum fyrir flugið í heild. Þessa daganna er félagið að berjast fyrir lægri tryggingaiðgjöldum fyrir loftför og lægra eldsneytisverði ásamt fleiri málum sem að hinn almenni flugmaður / áhugamaður verður lítið var við.

Framtíðin:
Markmið félagsins er að verða meira sýnilegt í framtíðinni gagnvart félögum þeirra klúbba og félaga sem heyra undir Flugmálafélag Íslands.

Aðildarfélög FMÍ:
Hin ýmsu félög og klúbbar mynda FMÍ og eru þau af ýmsum toga. Deildir hafa verið myndaðar innan FMÍ til að greina þessi félög en hægt er að sjá félögin og tengla á þau undir „Aðildarfélög“ á heimasíðu okkar www.flugmalafelag.is

Stjórn FMÍ:
Í stjórn FMÍ sitja aðilar úr hinum ýmsu deildum félagsins. Fundir eru haldnir reglulega og er þá unnið að skipulaggningu félagsstarfa og stjórnarmenn taka að sér hin ýmsu verkefni. Kosið er í stjórn félagsins til tveggja ára í senn. Stjórnarmenn eru kynntir hér að neðan ásamt embætti þeirra hjá félaginu.

Forseti Arngrímur B. Jóhannsson Vélflugdeild
Varaforseti Sigmundur M. Andrésson Svifflugdeild
Varaforseti Bjarni Þórðarson Fisflugdeild
Ritari Tyrfingur Þorsteinsson Vélflugdeild
Gjaldkeri Hjalti Geir Guðmundsson Vélflugdeild
Endurskoðandi Ásbjörn Björnsson
Endurskoðandi Stefán Jóhannsson
Varaendurskoðandi Jón Pétursson


Kveðja,
Flugmálafélag Íslands.