Sælir hugar

Í tilefni af greinarskrifum um FÍA, trúnaðarlækni FMS og það að flugmenn séu rútubílstjórar háloftanna að þá langar mig nú til þess að birta hér í heild sinni pistil eftir Rafn Jónsson flugstjóra hjá Flugleiðum um ferðina sem aldrei var farinn er hún birt á vef starfsmannafélags Flugleiða STAFF (work.icelandair.is). Þessi skrif hans finnst mér útskýra mjög vel þá sérstöðu sem þessi stétt hefur og mun alltaf hafa meðal annars útaf FÍA.


FERÐIN SEM ALDREI VAR FARINN

Það kom farþegi í heimsókn í stjórnklefann á flugi og sagði eftir stutta heimsókn: “Hvað eruð þið að gera hérna, þið gerið bara ekki neitt!” Þetta leit ekki vel út. Þarna sátum við tveir flugmennirnir í stjórnklefa nútíma hátækniþotu og geystumst áfram á 850 km. hraða og gerðum bara ekki neitt! En þar sem við sátum þarna aðgerðarlausir, hvernig stendur þá á því að til þess að fá að fljúga svona flugvélum verða menn að hafa mikla reynslu að baki og þar að auki tekur margar vikur að þjálfa þá á viðkomandi flugvélategund. Ekki nóg með það; á sex mánaða fresti verða menn að sýna fram á í hæfnisprófi í flughermi að þeir séu vandanum vaxnir til að fá að halda starfsréttindum sínum. En það þýddi ekkert fyrir okkur flugmennina að reyna að útskýra þetta fyrir gestinum okkar. Hann vissi nefnilega vel að flugmenn vinna næstum aldrei og þegar þeir loksins mæta í vinnuna gera þeir ekki neitt!

Þegar ég velti fyrir mér þjálfun og starfi flugmannsins dettur mér í hug dæmisaga Sigurðar Norðdal um ferðina sem aldrei var farin. Þessi klassíska dæmisaga fjallar um Lucius sem var uppi í Rómarveldi á annarri öld eftir Krists burð. Lucius var vel menntaður en eftir að hann missti föður sinn lagðist hann í gjálífi og lifði hvern dag í dýrlegum fagnaði. Rómarkeisari hafði áhyggjur af Luciusi og sendi honum bréf þar sem hann sagði að hann hefði ákveðið að senda hann í vandasama sendiferð um ókunn lönd og leiðir og til undirbúnings hafði hann þrjú ár, jafnvel lengri tíma. Lucius hóf að búa sig undir það óþekkta og kom lífi sínu í góðar skorður og stundaði margháttaðar íþróttir og fræði sem að gagni gætu komið í ferðinni miklu. Til að gera langa sögu stutta fór Lucius aldrei í ferðina og Rómarkeisari játaði fyrir honum tíu árum síðar að sendiförin mikla hefði verið tilbúningur einn, svo Lucius breytti lifnaðarháttum sínum.

Svipaða sögu má segja um flugmenn! Þegar þeir ráðast til starfa miðast öll þjálfun þeirra við að takast á við það óvænta, atburði sem í raun engin flugmaður vill þurfa standa frammi fyrir í lífinu. Flugmenn glíma við eld í hreyfli eða farþegarými, biluð stjórntæki, hættuleg veðurskilyrði, og margt fleira, sem getur komið fyrir í hinu daglega lífi þegar þeir eru í þjálfun. Þeir hætta við flugtak í flugherminum, það slökknar á öðrum hreyflinum við hættulegustu skilyrði og þeir fljúga mörg hundruð aðflug í lélegu veðri í flugherminum, þangað til að þetta verður allt sem sjálfsagður hlutur.

Sem betur fer kemur þessi mikli undirbúningur flugmanna flestum þeirra ekki að neinum eða litlum notum á starfsævinni, því langflestir flugmenn vinna alla starfsævina án þess nokkru sinni að lenda í neinni teljandi hættu eða óvæntum skilyrðum sem geta valdið hættu. En þeir sem lenda í slíkum aðstæðum eru undir þær búnir, eru tilbúnir í ferðina, sem þeir flestir vona að þeir þurfi aldrei að fara og bregðast við þessum óvæntu aðstæðum af miklu öryggi. Þannig eru flugmenn undirbúnir undir ferðina sem vonandi aldrei verður farin!

En það er af farþeganum að segja sem kom í heimsókn í stjórnklefann og sagði að við flugmennirnir gerðum ekki neitt; af einhverjum ástæðum vildi hann ekki fyrir nokkurn mun að við stæðum upp og færum báðir saman aftur í farþegarýmið til sitja saman til borðs í matartímanum, þó svo við gerðum ekkert þarna framí!